Afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um tekjuskatt og eignarskatt

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 10:35:44 (2255)

2002-12-06 10:35:44# 128. lþ. 48.91 fundur 299#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um tekjuskatt og eignarskatt# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[10:35]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Efh.- og viðskn. þingsins hefur fundað stíft að undanförnu enda liggja mörg þingmál fyrir nefndinni. Um sum þessara mála er ágætt samkomulag og almennt á það við um vinnubrögð í efh.- og viðskn. að sátt er um vinnubrögðin.

Öðru máli gegnir um tekjuskattsfrv. ríkisstjórnarinnar. Um það er bullandi ágreiningur, ekki aðeins á milli stjórnar og stjórnarandstöðu heldur hefur einnig komið fram ágreiningur innan stjórnarliðsins.

Í ofanálag liggur fyrir að ýmsar upplýsingar sem eru nauðsynlegar fyrir þingmenn til að móta sér afstöðu liggja ekki fyrir og eru ekki væntanlegar fyrr en upp úr helgi. Nú hefur því verið lýst yfir að á skyndifundi sem boðaður hefur verið í efh.- og viðskn. í hádeginu í dag eigi að beita meirihlutavaldi til þess að rífa þetta mál út úr þingnefndinni. Ég tek undir þau mótmæli sem hér hafa verið höfð í frammi um að málið verði afgreitt frá efh.- og viðskn. á fundi í dag.