Ástandið á kjötmarkaðnum

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 12:34:19 (2307)

2002-12-06 12:34:19# 128. lþ. 48.95 fundur 303#B ástandið á kjötmarkaðnum# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[12:34]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Neytendum jafnt og bændum er mikilvægt að jafnvægi ríki á kjötmarkaði og verð sé hóflegt þannig að neytendur geti keypt það kjöt sem þeir gjarnan vilja setja á sinn disk. Því miður hefur það verið áberandi að undanförnu hversu gríðarlega hátt verð er á kjötvöru í borðum verslana og í hróplegu ósamræmi við það sem venjulegir kaupendur geta veitt sér. Það er heldur ekki í neinu samræmi við það lága verð sem bændur fá fyrir framleiðslu sína. Það er grátlegt að vita til þess að íslenskt lambakjöt, sem er einhver sú besta og hollasta matvara sem við Íslendingar getum veitt okkur, skuli hafa verið verðlagt bókstaflega út af markaðnum með þeim hætti sem hér hefur tíðkast.

Það sama má segja um nautakjöt en á því hefur framleiðsluverð til bænda verið með þeim hætti að engan veginn dugar fyrir framleiðslukostnaði auk þess sem ógerlægt er fyrir kaupendur að vita hvað er verið að bjóða í kjötborðum verslana, fyrsta flokks nautakjöt eða kýrkjöt, af ungu eða gömlu, allt er selt á sama verðinu sem 1. flokks kjöt. Einhvers staðar í ferlinu verður eftir sá gríðarlegi mismunur sem er á verði til framleiðenda og neytenda. Hver græðir?

Stundum virðist mér af umræðunni sem allir séu að tapa. Á undangengnum missirum hefur aukist gríðarlega framleiðsla á svínakjöti og kjúklingum og á þessum vörum hefur verið mikið offramboð sem hefur leitt til undirboða á markaðnum. Neytendur hagnast á því tímabundið en nú ku vera útlit fyrir mörg gjaldþrot hjá framleiðendum þessa kjöts og ekki hagnast neytendur á því er til lengdar lætur. Gríðarlegar fjárfestingar í þessum geira hafa vakið undrun og spurt er: Hvaðan kom allt það fé sem var lagt í þessa augljósu offjárfestingu?