Tekjustofnar sveitarfélaga

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 13:44:48 (2321)

2002-12-06 13:44:48# 128. lþ. 48.6 fundur 441. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (Jöfnunarsjóður) frv. 167/2002, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[13:44]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Á miðvikudaginn var undirritaður samningur milli ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um fjármálaleg samskipti þessara aðila. Þetta var mjög merkilegt samkomulag og þetta frv., og reyndar annað frv. sem ég mun mæla fyrir á eftir, byggjast að hluta til á þessu samkomulagi og fullnusta það.

Í öðru lagi byggist þetta frv. á tillögum nefndar sem ég skipaði 14. febrúar 2001 til að endurskoða III. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, en sá kafli fjallar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Enn fremur fékk nefndin það hlutverk að endurskoða reglugerðir sem byggðar eru á ákvæðum þessa kafla tekjustofnalaganna.

Í nefndinni voru Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður, Gísli S. Einarsson alþingismaður, Húnbogi Þorsteinsson skrifstofustjóri, Jóhann Sigurjónsson bæjarstjóri, Valgarður Hilmarsson oddviti og Jón Kristjánsson alþingismaður sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar. En þegar hann tók við embætti heilbrigðisráðherra tók Magnús Stefánsson alþingismaður við formennsku í nefndinni. Starfsmenn nefndarinnar voru skipuð þau Elín Pálsdóttir og Hermann Sæmundsson, deildarstjórar í félagsmálaráðuneytinu, og Gunnlaugur Júlíusson, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga. Jafnframt störfuðu Jóhannes Á. Jóhannesson, starfsmaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Guðni Geir Einarsson, starfsmaður jöfnunarsjóðs, með nefndinni.

Skýrsla nefndarinnar er dagsett 24. september 2002. Þar eru tilgreind þau markmið sem nefndin hafði að leiðarljósi við endurskoðun á starfsemi jöfnunarsjóðs. Þau voru einkum eftirfarandi: Í fyrsta lagi að gera aðferðir við útreikning og úthlutun framlaga almennari en nú er og takmarka sértækar aðgerðir. Í öðru lagi að stilla framlögum sjóðsins upp á nýjan og aðgengilegri hátt þannig að betri yfirsýn skapist yfir hlutverk og framlög sjóðsins. Í þriðja lagi að gera nauðsynlegar breytingar á tilteknum reglum sjóðsins til þess að mæta breyttum forsendum. Meðal breytinga sem orðið hafa má nefna að sveitarfélögum hefur fækkað og þau hafa stækkað, auk þess sem verkefni þeirra og tekjustofnar hafa breyst. Í fjórða lagi að tryggja réttláta jöfnun meðal sveitarfélaga.

Nefndin skilaði áfangaskýrslu til mín í mars 2002 um endurskoðun framlaga við yfirfærslu grunnskólans. Í þeirri skýrslu voru lagðar til breytingar á reglugerð um jöfnunarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til reksturs grunnskóla, nr. 653/1997, með síðari breytingum, en í henni er fjallað um framlög sjóðsins við yfirfærslu grunnskólans. Með þeirri tillögu leit nefndin svo á að endurskoðunarvinnu væri lokið og líta bæri áfram á hlutverk jöfnunarsjóðs í málefnum grunnskóla sem sérstakt verkefni. Ég gaf síðan út reglugerð á grundvelli tillagna nefndarinnar og í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um jöfnunarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til reksturs grunnskóla, nr. 351/2002.

Í stuttu máli má segja að áhrifin af tillögum nefndarinnar séu þau að stöðva greiðslur til lítilla og tekjuhárra sveitarfélaga og í öðru lagi eru þarna gildar gulrætur til þess að hvetja sveitarfélög til sameiningar, sérstök framlög til þess, og það er mikil freisting í þessu frv. fyrir sveitarfélög til að sameinast.

Í samkomulaginu um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga eru á hinn bóginn lagðar til eftirfarandi breytingar sem frumvarpið felur í sér:

1. Framlög til jöfnunar tekjutaps einstakra sveitarfélaga vegna lækkunar fasteignaskattstekna skv. e-lið 8. gr. hækki frá 1. janúar 2003 úr 0,64% í 0,72% af beinum og óbeinum sköttum sem innheimtir eru í ríkissjóð. Framlagið verður sameinað framlagi ríkisins skv. a-lið 8. gr. sem nú er 1,4% af sama stofni og fellur því e-liður 8. gr. niður. Hækkunin leiðir til þess að árleg framlög ríkissjóðs hækka um rúmlega 160 millj. kr. miðað við tekjuáætlun fjárlaga fyrir árið 2003. Þá er gert ráð fyrir 260 millj. kr. sérstöku aukaframlagi af þessu tilefni í fjáraukalögunum 2002 sem við vorum að samþykkja áðan.

2. Í framangreindu samkomulagi er einnig gert ráð fyrir að framkvæmd húsaleigubótakerfisins verði áfram verkefni sveitarfélaga. Því er lagt til að niður falli ákvæði 3. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, um framlag ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, eins og ég kem að þegar næsta mál kemur á dagskrá.

Í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um breytingar á fjárhagslegum samskiptum er enn fremur gert ráð fyrir að ríkið taki yfir 15% hlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði og meiri háttar viðhaldi og tækjakaupum heilsugæslustöðva, svæðissjúkrahúsa, deildasjúkrahúsa og almennra sjúkrahúsa samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990. Aðilar eru jafnframt sammála um að áætlaður árlegur kostnaður sveitarfélaga sem ríkið yfirtekur samkvæmt samkomulaginu nemi að meðaltali 100 millj. kr. á ári og að framlag ríkissjóðs í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sbr. a-lið 8. gr., lækki til samræmis við það. Jafngildir það 0,05% af beinum og óbeinum sköttum innheimtum í ríkissjóð. Samkvæmt samkomulaginu skal framlag ríkissjóðs í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga skv. a-lið 8. gr. laganna, að teknu tilliti til breytinga sem samkomulagið hefur í för með sér, vera 2,12% frá og með 1. janúar 2003.

Með þeim breytingum sem í samkomulaginu felast koma til sveitarfélaganna í fjáraukalögum ársins í ár og fjárlögum næsta árs 800--870 millj. kr. sem færast til tekna hjá sveitarfélögunum.

Ég vil taka fram að mikil ánægja er með þetta samkomulag, bæði hjá ríki og eins hjá sveitarfélögunum. Þetta gerir verkaskiptinguna skýrari og hér eru leyst til frambúðar ágreiningsefni eða núningsefni sem hafa verið á milli þessara aðila að undanförnu.

Að lokinni umræðu í dag legg ég til að málið fari til hv. félmn. til athugunar. Hæstv. heilbrrh. mun flytja sérstakt frv. um þann þátt sem að heilbrrn. snýr, þ.e. færslu á kostnaði við yfirtöku ríkisins á kostnaði við sjúkrastofnanir.