2002-12-12 10:50:45# 128. lþ. 54.94 fundur 316#B samræming réttinda opinberra starfsmanna og félaga innan ASÍ sem vinna hjá ríkinu# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[10:50]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Samræming réttinda þeirra sem starfa hjá ríkinu er vissulega nokkuð sem stefna ber að. Samt ber að minnast þess að stéttarfélögin hafa sjálfstæðan samningsrétt. Það er ekki hægt með nokkru móti að ganga yfir þann rétt stéttarfélaganna. Það er ekki heldur hægt að ganga á rétt starfsmanna til að velja sér stéttarfélag. Þar hafa menn frelsi.

Eins og staðan er nú hafa félög innan ASÍ náð betri réttindum á nokkrum sviðum, t.d. varðandi sjúkrasjóðina. Opinberir starfsmenn hafa hins vegar náð fram réttindum á öðrum sviðum. Almennt má segja að á seinni árum hafi færst saman með þessum hópum. Þar vil ég sérstaklega nefna, þrátt fyrir orð hv. þm. Gísla Einarssonar, að í lögum um fæðingar- og foreldraorlof hefur náðst mikil samræming. Þar er um mikla réttarbót að ræða. Þar er jöfnun á milli karla og kvenna og jöfnun á milli almenna vinnumarkaðarins og opinberra starfsmanna.

Á Íslandi höfum við sveigjanlegan vinnumarkað og það er mikilvægt að atvinnulífið viðhaldi þeim sveigjanleika og forðist þau höft og þann reglugerðafrumskóg sem einkennir vinnumarkað í ríkjum Evrópusambandsins. Á Íslandi höfum við byggt upp mikið og gott lífeyrissjóðakerfi sem mun til framtíðar skila starfsmönnum, bæði hjá hinu opinbera og á almennum vinnumarkaði, miklum réttindum.

Eins og fram kom hjá hæstv. fjmrh. er hér um viljayfirlýsingu að ræða frá því fyrir ári síðan. Það er alveg fráleitt að tala í þingsölum um að um vanefndir sé að ræða þegar viðræður standa yfir og menn ætla sér á endanum að ná niðurstöðu.