Leiðtogafundur um sjálfbæra þróun

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 11:21:44 (2538)

2002-12-12 11:21:44# 128. lþ. 54.1 fundur 381. mál: #A leiðtogafundur um sjálfbæra þróun# skýrsl, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[11:21]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að þakka það að skýrsla hæstv. umhvrh. skuli vera tekin hér til umfjöllunar þó að nokkuð sé um liðið síðan sendinefnd Íslands kom heim frá leiðtogafundinum um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg. Það kannski gerir ekki svo mikið til vegna þess að auðvitað erum við að tala um langtímaverkefni og langtímamarkmið. Það er til lítils að fara yfir hálfan hnöttinn á stóran fund eða stóra ráðstefnu sem þessa og koma svo heim aftur og gera lítið við niðurstöðurnar eða vinna ekki þá vinnu sem niðurstöðurnar krefja okkur um.

Ég vil í máli mínu beina athyglinni sérstaklega að framhaldinu, þ.e. hvað þessar samþykktir þýða sem hér liggja fyrir og íslensk stjórnvöld hafa undirritað og samþykkt, hvort heldur er framkvæmdaáætlun og yfirlýsing Jóhannesarborgarfundarins eða þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem ríma alveg saman við það sem verið var að ræða í Jóhannesarborg, og eru auðvitað þessi yfirmarkmið sem öll þjóðfélög verða að setja sér, rík og fátæk, öll þjóðfélög ætla að setja sér og hafa sett sér. Þessi markmið eru í raun og veru grundvöllur þeirrar stefnu um sjálfbæra þróun sem við ætlum að byggja á, hvort sem það varðar umhverfið sérstaklega, baráttuna gegn fátækt eða baráttuna fyrir fullum mannréttindum allra manna því að þetta þrennt hangir auðvitað saman í umfjölluninni um sjálfbæra þróun og það er í raun ekki hægt að tala um eitt án hinna.

Það sem kom svo berlega í ljós í Jóhannesarborg, og ég veit að hv. þm. sem þar voru staddir taka undir það með mér, var að baráttan gegn fátækt, baráttan fyrir því að þeir tveir milljarðar manna sem þurfa að skrimta á 150 kr. á dag --- flestir hafa ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni eða hreinlætisaðstöðu og langflestir mjög lítinn aðgang að menntun --- er miskunnarlaus. Það er til mjög lítils að ætlast til þess að þetta fólk fái enga aðstoð við að koma lífi sínu á réttan kjöl, ef ég má orða það svo, þannig að það hafi einhver tækifæri til að lifa mannsæmandi lífi og við þau lágmarkskjör sem við hér teljum fullkomlega eðlileg. Við á Íslandi höfum eytt síðustu öld í að byggja upp sterkt og gott velferðarsamfélag og það er kannski það sem er stundum svolítið heillandi í samanburðinum milli eins af ríkustu löndum heims, sem er Ísland, og þeirra síðan sem eru fátækust, eins og t.d. Mósambík, að það er mjög stutt síðan Íslendingar voru staddir þar sem þessi fátækustu lönd heims eru stödd núna. Það eitt ætti að gera það að verkum að við hefðum meiri skilning og meiri áhuga á að vinna með þessum þjóðum en aðrir. Það er a.m.k. mín einlæga skoðun í þessu efni.

En það sem hefur auðvitað breyst á síðustu 100 árum er að menn hafa gert sér grein fyrir því að það er ekki hægt að komast til efnahagslegrar velferðar með sama hætti og iðnríkin gerðu. Sú aðferð er einfaldlega úrelt. Þess vegna hefur aðferð hinnar sjálfbæru þróunar tekið við og það er auðvitað skylda okkar, siðferðileg skylda okkar, að aðstoða aðra við að komast þangað sem við erum komin og að horfa í eigin barm um neysluna og þann lífsstíl sem Vesturlandabúar, sérstaklega þeir, hafa tileinkað sér. Sá lífsstíll er svo sannarlega ekki sjálfbær. Við vitum öll hvort sem við viljum viðurkenna það eða ekki að hann er ekki sjálfbær.

Framhaldið, hæstv. forseti, skiptir því mjög miklu máli. Hvar ætla íslensk stjórnvöld að beita sér? Við erum og höfum verið málsvarar hafsins, ef svo má að orði komast, og notkunar endurnýjanlegrar orku og auðvitað er það gott og vel og mjög skiljanlegt miðað við þá hagsmuni sem við höfum að verja. En mér finnst að það sé kominn tími til að víkka út þessa skilgreiningu og víkka út þau verkefni sem Ísland er að fást við á alþjóðlegum vettvangi. Til þess að svo verði þarf að endurskilgreina og setja ný markmið í utanríkisstefnunni, markmið sem byggja á sjálfbærri þróun og virðingu fyrir mannréttindum og umhverfinu af því að með því að gera það þannig lægi t.d. algjörlega ljóst fyrir hvernig íslensk stjórnvöld beittu sér í Doha-lotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að hún skiptir grundvallarmáli um framhaldið í þessum efnum. Og það skiptir mjög miklu máli að við séum t.d. málsvarar frjálsrar verslunar og opinna markaða fyrir fátæk ríki. Við vitum að án þess að opna markaði og gefa öllum kost á að stunda frjálsa verslun og flytja út þær vörur sem þeir framleiða er til mjög lítils að tala um að bæta kjörin. Kjörin verða ekki endalaust bætt með neyðaraðstoð og þróunarhjálp enda á það ekki að vera þannig. Það á að bæta kjörin með því að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft. Það er m.a. gert með því að efla frjálsa verslun. Mér finnst skipta mjög miklu máli að það komi skýrt fram hvaða skref verða tekin af hálfu Íslands í því.

Rétt að lokum af því að ég sé að tími minn er á þrotum, herra forseti. Önnur stoð í þessu máli er réttindi kvenna. Hafi ég einhvern tíma verið sannfærð um að þau væru forsenda þess að hægt væri að rífa heilu þjóðirnar upp úr eymd og fátækt var ég það þegar ég kom heim frá Jóhannesarborg. Þau verða að vera forgangsverkefni íslenskra stjórnvalda.