Leiðtogafundur um sjálfbæra þróun

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 11:48:06 (2546)

2002-12-12 11:48:06# 128. lþ. 54.1 fundur 381. mál: #A leiðtogafundur um sjálfbæra þróun# skýrsl, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[11:48]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að auðvitað hefði ég kosið að geta fengið meiri tíma til að ræða þessi mál og ég held að við ættum að reyna að koma því þannig fyrir í samvinnu við hæstv. umhvrh. að hægt sé að ræða hér um sjálfbæra þróun og stefnumótun íslenskra stjórnvalda, bæði hér heima og í samstarfi við önnur ríki á heildstæðari hátt en við getum á þeim stutta tíma sem við höfum hér. Hins vegar er þessi umræða auðvitað miklu betri en engin og ber að þakka fyrir hana svo langt sem hún nær. Og það hvarflar að mér að það væri verðugt verkefni fyrir hið háa Alþingi að setja á fót sérstaka starfsnefnd fulltrúa allra flokka um þessi mál af því að ég heyri ekki betur, herra forseti, en að hér sé full þverpólitísk samstaða um gildi sjálfbærrar þróunar og það hvernig við eigum að vinna með hana að leiðarljósi í umhverfismálum, bæði hér heima og í samstarfi við önnur ríki. Og það eitt skiptir auðvitað mjög miklu máli fyrir framhaldið.

Sjálfbær þróun er, eins og ég hef sagt áður, herra forseti, auðvitað í eðli sínu jafnaðarstefna og snýst ekki bara um jöfnuð á milli manna heldur jöfnuð á milli landa, jöfnuð á heimsvísu. Það er mjög gleðilegt að finna að hér skuli fulltrúar allra stjórnmálaflokka á hinu háa Alþingi taka undir þessi grundvallarsjónarmið. Auðvitað munum við kljást um útfærslu og annað en það skiptir mjög miklu máli að þessi samhljómur sé hér þannig að hægt sé að fylgja orðunum eftir með framkvæmdaáætlun og efndum til framtíðar sem skipta ekki bara máli á Íslandi heldur skipta líka fólk í öðrum löndum máli, það fólk sem við ætlum að vinna með og aðstoða við að koma undir sig fótunum svo að fleiri en Íslendingar geti lifað mannsæmandi lífi á jörðinni.