Fjármálafyrirtæki

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 15:53:00 (2597)

2002-12-12 15:53:00# 128. lþ. 54.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv. 161/2002, KPál
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[15:53]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég ætlaði að fá að segja örfá orð um þetta mál sem snýr fyrst og fremst að sparisjóðunum og þeim breytingum sem verið er að huga að á sparisjóðum með þessu máli.

Eins og flestir muna var mjög mikil umræða um það hvernig ætti að að meðhöndla mál sem komu upp varðandi SPRON í sumar og marga fleiri sparisjóði sem höfðu hugsað sér að breyta rekstri sínum úr sparisjóðaforminu í hlutafélagaform. Það var af mörgum talið, m.a. Sparisjóði Keflavíkur þar sem ég er einn af stofnfjáreigendum, að forsenda fyrir því að sparisjóðirnir gætu fetað sig inn í nútímann og styrkt stöðu sína þannig að þeir yrðu í sömu stöðu og viðskiptabankar yrði að breyta þeim í hlutafélög, það væri nánast um líf eða dauða fyrir þessa stærstu sparisjóði að ræða að hafa þessa möguleika ef þeir ættu að vera boðlegir viðskiptalífinu eins og viðskiptabankar.

Þess vegna var t.d. ákveðið af Sparisjóði Keflavíkur og stofnfjáraðilum þar að fara af stað með hlutafjárvæðingu sparisjóðsins eftir eindregna ósk þar um frá stjórn sparisjóðsins.

Síðan kom upp mál SPRON og öll sú deila sem því fylgdi, og nú sýnist mér að með þeim lögum sem hér er verið að reyna að setja sé bókstaflega verið að eyðileggja þá möguleika að gera sparisjóði að hlutafélögum. Og þá spyr ég: Hver er þá staða sparisjóðanna eftir þetta? Ég hefði, herra forseti, viljað fá viðskrh. hingað inn til þess að hægt væri að spyrja hæstv. ráðherra um nokkur atriði sem varða þetta mál og mér finnst skipta máli.

(Forseti (HBl): Ég hygg að það sé skynsamlegt að fresta ræðunni því að við erum að byrja utandagskrárumræðu klukkan fjögur og ég sé ekki að það sé svigrúm til slíkra orðaskipta nú. Ég býð hv. þingmanni að fresta ræðunni.)

Það er mér að meinalausu, herra forseti.