Staðan í samningaviðræðum um Kárahnjúkavirkjun

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 16:12:14 (2602)

2002-12-12 16:12:14# 128. lþ. 54.95 fundur 317#B staðan í samningaviðræðum um Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[16:12]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt til þess að vita að svo vel gengur með samningaviðræður vegna fyrirhugaðs álvers við Reyðarfjörð. Lengi hafa verið áform um nýtingu fallvatna á Austurlandi til atvinnusköpunar. Það verður að segjast eins og er að nú þætti okkur Austfirðingum óskaplega gott að sjá fyrir endann á samningaviðræðunum og að hægt yrði fyrir alvöru að hefjast handa við framkvæmdir.

Þær undirbúningsframkvæmdir sem búnar eru eða eru nú í gangi hafa þó sýnt mikinn þunga og mikla alvöru stjórnvalda og Landsvirkjunar við að ná settum markmiðum. Fullyrðingar um ótrúverðugleika hjá hv. málshefjanda eru fullkomlega fráleitar. Ég er ekki í nokkrum vafa um að Landsvirkjun mun semja um raforkuverð með þeim hætti að arðsemi verði góð af virkjuninni. Við gerum okkur grein fyrir að um gífurlega flókna samningagerð er að ræða.

Landsvirkjun hefur sýnt að fyrirtækið hefur alltaf staðist þá raun að ná þeim samningum að arðsemi verði góð. Þetta er að sönnu stór og mikil framkvæmd en hún mun einnig hafa mikil og góð áhrif á þjóðarhag til skemmri og lengri tíma. Atvinnusköpunin skiptir gífurlega miklu máli. Allt umhverfið í íslensku efnahagslífi er nú með besta móti til þess að takast á við svo stórt verkefni.

Við skulum ekki heldur gleyma því að hin góða lánshæfiseinkunn sem góð efnahagsstjórn undanfarinna ára hefur aflað okkur kemur Landsvirkjun einnig til góða. Landsvirkjun hefur reyndar einnig hlotið bestu lánshæfiseinkunn eins og íslenska ríkið. Það skiptir máli að hægt sé að hefjast handa sem fyrst og það væru ánægjuleg tíðindi ef verktakar gætu byrjað nú í mars.

Hæstv. forseti. Hér er um byggðamál að ræða. Framkvæmdir fyrir austan munu hafa áhrif um allt land. Allir þeir sem hafa áhuga á fólki, hæstv. forseti, ég segi fólki og lífskjörum þess, hljóta að fagna ef samningar nást í þessari lotu.