Staðan í samningaviðræðum um Kárahnjúkavirkjun

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 16:30:36 (2610)

2002-12-12 16:30:36# 128. lþ. 54.95 fundur 317#B staðan í samningaviðræðum um Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[16:30]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Fyrst út af orðum hv. þingmanns sem hann hafði eftir mér frá blaðamannafundi í júlí. Það var reyndar þannig að ég sagði þetta í léttum dúr. (ÖJ: Var að gera grín bara?) Ég geri það stundum að slá á létta strengi vegna þess að ég hef gaman af lífinu og (ÖJ: Það er verið að vitna í hæstv. ráðherra.) gaman af því líka að fjalla um mál á léttu nótunum. Þarna sló ég á létta strengi en ég veit að hv. þm. hefur ekki skilning á því.

Þessi umræða er nokkuð hefðbundin og fátt nýtt sem kemur fram. Ég held því fram að það hafi gengið ótrúlega vel að undirbúa þetta mál og vinna að því. Ég tel reyndar með ólíkindum að við skulum standa frammi fyrir því núna að vera væntanlega að ná því í höfn eftir svo skamman tíma með Alcoa. Útlit er þó fyrir, eins og hér hefur komið fram, að svo sé en hins vegar er rétt að hafa þann fyrirvara á að ekki hefur endanlega verið skrifað undir samninga. Ég fór yfir það í máli mínu áðan.

Það er talað um að þetta sé mesta átakamál síðustu ára. Ég er ekki sannfærð um að svo sé. Mér finnst að þetta mál hafi gífurlega mikinn stuðning. Ég verð vör við það í ráðuneyti mínu. Ég fæ mikil viðbrögð og mikinn stuðning utan úr þjóðfélaginu.

Hv. þm. Steingrímur Sigfússon talar um að hann telji að atvinnulífið styðji þetta ekki lengur og ekki viðskiptalífið. En Samtök atvinnulífsins styðja samt málið, ASÍ styður það og svo mætti lengi telja. Þó að vissulega séu uppi raddir sem eru nokkuð háværar og þess efnis að beita sér gegn málinu er það í raun skiljanlegt þegar um svo stóra framkvæmd er að ræða, að ekki ríki um hana algjör samstaða. Ég ætlast ekki til þess. Ég ætlast hins vegar til þess að menn fari með rétt mál og setji ekki fram falsaðar upplýsingar. Það á við bæði á Íslandi og gagnvart erlendum aðilum. (ÖJ: Það á við um ráðherrann sjálfan.)