Veiðieftirlitsgjald

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 16:43:23 (2620)

2002-12-12 16:43:23# 128. lþ. 54.25 fundur 437. mál: #A veiðieftirlitsgjald# (greiðsluskylda) frv. 137/2002, Frsm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[16:43]

Frsm. sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 33 frá 5. maí 2000, um veiðieftirlitsgjald, með síðari breytingum.

Frv. til laga um breytingu á lögum um veiðieftirlitsgjald var lagt fram á yfirstandandi þingi og afgreiddi sjútvn. einungis þær gjaldtökuhækkanir sem frv. gerði ráð fyrir en felldi út úr frv. með brtt. þá grein sem varðaði rýmkaða greiðsluskyldu útgerða við veiðieftirlit. Nú flytjum við frv. nokkuð breytt þar sem ekki vannst tími til að ljúka vinnu við brtt. fyrir lok nóvember en nauðsynlegt var að afgreiða málið að öðru leyti fyrir þann tíma.

Með þessu frv. leggur nefndin til þá breytingu á lögunum að ekki aðeins útgerðir skipa sem fullvinna botnfiskafla um borð greiði fyrir eftirlit um borð í skipum sínum, heldur taki greiðsluskyldan einnig til útgerða skipa sem vinna uppsjávarfisk og skipa sem vinna fisk um borð á einhvern hátt þótt ekki sé um fullvinnslu að ræða. Fullvinnsla hefur verið skilgreind þannig að hún sé vinnsla þegar flökun eða flatning er þáttur í vinnslunni. Í þessu sambandi skal þess getið að lagt hefur verið fram frv. um breytingu á lögum um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum sem gerir ráð fyrir að gildissvið laganna verði rýmkað á sambærilegan hátt. Erfitt er að meta hvort þessi rýmkaða greiðsluskylda útgerða vinnsluskipa auki tekjur Fiskistofu. Það fer m.a. eftir því hvernig mannafla stofnunarinnar er ráðstafað um borð í skipunum.