Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 16:45:41 (2621)

2002-12-12 16:45:41# 128. lþ. 54.26 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv. 130/2002, Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[16:45]

Frsm. sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38 frá 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Álitið er á þskj. 594.

Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra verði heimilt að samþykkja að ónýttar aflaheimildir vegna tilrauna til áframeldis á þorski verði færðar milli fiskveiðiáranna 2001--2002 og 2002--2003. Þá er einnig lagt til að þær 500 lestir af óslægðum botnfiski sem ráðherra hafði til ráðstöfunar á fiskveiðiárinu 2001--2002 til stuðnings byggðarlögum sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi eins og segir í lögunum skuli bætast við þær aflaheimildir sem ráðherra hefur til ráðstöfunar í sama tilgangi á fiskveiðiárinu 2002--2003.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta rita auk formanns og frsm., hv. þm. Árni Ragnar Árnason, Guðjón A. Kristjánsson með fyrirvara, Guðmundur Hallvarðsson, Hjálmar Árnason, Jóhann Ársælsson með fyrirvara og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir með fyrirvara.