Breyting á VII. viðauka við EES-samninginn

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 17:01:45 (2629)

2002-12-12 17:01:45# 128. lþ. 54.33 fundur 395. mál: #A breyting á VII. viðauka við EES-samninginn# (lögmenn) þál., Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[17:01]

Frsm. utanrmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2002, um breytingu á VII. viðauka (gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) við EES- samninginn frá utanrmn.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2002 frá 25. júní 2002, um breytingu á VII. viðauka (gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/5/EB frá 16. febrúar 1998, um að auðvelda lögmönnum að starfa til frambúðar í öðru aðildarríki en þar sem þeir hlutu starfsmenntun sína og hæfi.

Tilgangur tilskipunarinnar er að gera lögmönnum kleift að starfa í öðru aðildarríki en þar sem þeir fengu starfsréttindi sín, undir starfsheiti heimalands síns og einnig að auðvelda þeim að fá starfsheiti gistiríkisins. Með innleiðingu tilskipunarinnar er íslenskum lögmönnum gert auðveldara að starfa sem lögmenn í öðrum EES-ríkjum og á sama hátt er erlendum lögmönnum gert auðveldara að starfa hér á landi. Að mati dóms- og kirkjumrn. kallar innleiðing tilskipunarinnar á breytingar á lögum nr. 77/1998, um lögmenn, en frv. þess efnis hefur enn ekki verið lagt fyrir Alþingi.

Utanrmn. leggur einróma til að tillagan verði samþykkt.