Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 13:25:36 (2772)

2002-12-13 13:25:36# 128. lþ. 59.2 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[13:25]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni að stoðkerfið tryggir og treystir velferð. Og þegar hæstv. iðn.- og viðskrh. heldur því fram að orkukerfin hafi ekkert með velferð að gera þá er það mikill misskilningur. Mig langar til að taka lítið dæmi þar að lútandi.

Í London og París er búið að einkavæða raforkuþjónustuna. Það er franskt fyrirtæki sem rekur slíka þjónustu þar og nú er svo komið að búið er að keyra verðið á raforku svo hátt upp að margt fólk hefur ekki efni á því að hita híbýli sín og elda með raforku. Þetta er staðreynd. Í Bretlandi eru menn núna farnir að tala um orkufátækt, þ.e. fólk sem hefur ekki efni á því að nýta raforku í híbýlum sínum og til matargerðar.

Frakkarnir munu afskaplega hrifnir af því fyrirkomulagi sem er í Bretlandi þar sem menn hafa komið upp rafmagnsmælum. Fólk greiðir í mælinn og svo rennur tíminn út og þá slokknar á rafmagninu. Þetta finnst Frökkum afskaplega sniðugt vegna þess að þá sleppa menn við að rukka heimilin, rukka fátæku heimilin sem ekki búa við velferð, þá velferð að hita hýbýli sín með rafmagni. Ég held að það kæmi á margan manninn í vetrarkuldunum í Bretlandi þar sem slökkt hefur verið á rafmagninu að hlusta á hæstv. iðnrh. Íslands tala um velferð og skilgreina hana. Þetta eru bara staðreyndir. --- Nú hristir hæstv. ráðherra höfuðið. Þetta er út í hött náttúrlega og vitleysa en þetta eru staðreyndir, þetta eru bara staðreyndir. Og það eru staðreyndir sem við höfum vitnað í við þessa umræðu um afleiðingar þess að hlutafélagavæða og einkavæða slíka þjónustu.

Ég tók tvö dæmi í umræðunni í gær. Ég byggði málflutning minn upp annars vegar með því að sýna fram á að sú þjónusta þegar hún væri komin í hlutafélagsform væri ótryggari vegna þess að eigendurnir hlypust undan merkjum og þeir færu frá þessum stofnunum og þessum fyrirtækjum einmitt þegar mest ríður á að þeir sýndu henni trúnað. Þá er hlaupið á hlutabréfamarkaði eðli máls samkvæmt þangað sem arðurinn er mestur, þangað sem mestan arð er að hafa.

Ég tók dæmi af tveimur fyrirtækjum sem eiga núna í miklum erfiðleikum, British Energy sem sér Bretum fyrir 25% af rafmagni og hefur núna ítrekað sent út viðvörun um að án frekari aðstoðar frá hendi hins opinbera stefni í gjaldþrot fyrirtækisins. Hlutabréf í fyrirtækinu kolféllu í september sl. þrátt fyrir neyðaraðstoð bresku ríkisstjórnarinnar að upphæð 410 millj. breskra punda sem veitt er til þess að tími fengist til að endurskipuleggja fjármál fyrirtækisins.

Hitt dæmið sem ég tók var hlutafélagið Vivendi. Hlutabréf í því fyrirtæki hafa fallið um 80% á einu ári. Og hverju kenna menn um? Menn kenna um að eigendurnir hafi braskað með hluti, með fjáreign sína á sama hátt og verið er að opna fyrir með þessu frv. því að hér er sérstaklega vikið að því í 3. gr. frv. að fyrirtækið eigi að geta tekið þátt í viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Við höfum dæmi hér handan við Austurvöllinn af slíkum viðskipta- og fjármálaævintýrum eða muna menn það þegar síminn, Landssími Íslands, hf. núna, tapaði í einu vetfangi 500 millj. á braskævintýri í Bandaríkjunum, 500 millj. kr. á braski? Verið er að opna á slíkt í þessu frv. Ég er að taka dæmi um það að í orkugeiranum er þetta að gerast núna í Bretlandi, í Frakklandi og víðs vegar um heiminn. Vivendi er reyndar fremur inni í vatnsbúskapnum. Það er annað frv. sem liggur fyrir þinginu frá ríkisstjórninni, það er að hlutafélagavæða Gvendarbrunnana, að gera vatnsveiturnar í landinu að hlutafélögum og opna væntanlega fyrir það að þar verði braskað með hlutina. Vilja menn þetta?

[13:30]

Hitt atriðið sem ég nefndi laut að arðseminni. Þegar fyrirtæki hættir að vera þjónustufyrirtæki eða stofnun sem veitir þjónustu og starfar á gerbreyttum grunni til þess að skapa eigendum sínum arð þá verður grundvallarbreyting á starfseminni að sjálfsögðu. Ég vitnaði lítillega í greinar sem hafa verið að birtast í norskum blöðum upp á síðkastið þar sem farið hefur verið inn á þessa braut. Þar er það að gerast að orkuverðið hefur rokið upp á við. Norsk raforkufyrirtæki raka saman milljörðum, segir í frétt sem birtist í Dagbladet 22. september sl.

,,Þeir hafa komist upp með að kjafta verðið upp hvert haust, segir framkvæmdastjóri neytendaráðsins, Per Anders Stalheim.``

Hér vitna ég, með síðbúnu leyfi forseta, í þessa grein eða þýðingu á þessari grein í Dagbladet 22. september og þar heldur áfram, með leyfi forseta:

,,Í sumar rauk verðið á raflínuleigunni, dreifikerfinu upp. Ástæða: Við notum of lítið rafmagn. Nú þýtur rafmagnsverðið einnig upp. Ástæða: Við notum of mikið rafmagn. Þetta er markaður þar sem menn háfa inn peninga, segir Stalheim.`` --- Þetta eru neytendasamtökin norsku sem eru að tala --- ,,... þar sem menn háfa inn peninga. Verðhækkunin nemur allt að 30% hjá einstökum rafmagnsnotendum. Hagnaðurinn í rafmagnsgeiranum er einnig ævintýralegur. Árið 2000 var hagnaður norskra rafveitna um 11,6 milljarðar norskra króna og rafveiturnar greiddu 3,7 milljarða í arð til eigenda sinna.``

Nú er hæstv. ráðherra náttúrlega rokinn á dyr vegna þess að nú er farið að tala um staðeyndir. Nú sleppir nefnilega klisjunum, nú sleppir klisjutalinu og farið er að tala um staðeyndir. Þá rjúka menn á dyr. Þá hefur enginn tíma til að hugsa eða nennu eða vilja. En þetta eru staðreyndir. Þetta eru upplýsingar sem okkur eru að berast frá löndunum í kringum okkur, þeim ríkjum sem við miðum okkur við. Ég tek eftir því að Samfylkingin er heils hugar sammála þessu. (BH: Mjög gott mál.) Mjög gott mál og menn hverfa að sjálfsögðu úr salnum. Hv. þm. Gísli Einarsson situr hér og reyndar nikkar með velþóknun yfir þessu frv. Það er aðeins Vinstri hreyfingin -- grænt framboð sem hefur haft uppi andóf, gagnrýni og málefnalega gagnrýni. Nú er ég að vitna í norska fjölmiðla sem greina frá því hvað er að gerast þar í landi eftir að þessi búskapur var einkavæddur og menn fóru að hirða arð út úr honum, 3,7 milljarða norskra kr. á árinu 2000 --- við getum margfaldað það með tíu sem þeir eru að hirða upp --- með þeim afleiðingum að einstakir notendur borga 30% meira fyrir orkuna. Þeir eru að háfa inn hagnaðinn, segja norsku neytendasamtökin. Og hér heldur áfram í þessari grein, með leyfi forseta:

,,Nú tilkynna rafveiturnar um mikla hækkun rafmagnsverðs. Þeir rotta sig saman um verð á hverju hausti, segir Stalheim. Hann upplýsir að 80--90 norskar rafveitur þurfi aðeins 4--5 norska aura, 50--60 íslenska aura á kwst. til að vera reiknað með hagnaði. Allar rafveitur í Noregi væru reknar með hagnaði ef raforkuverð væri 15--20 norskir aurar á kwst. Nú verða menn að greiða allt að tvöfalt hærra.``

Síðan er meira. Þetta er mjög fróðleg grein, mjög fróðleg lesning. Það er athyglisvert að það er alveg sama hvaða rök eru reidd fram, þeim er aldrei svarað, röksemdum er aldrei svarað. Menn bregaðst aldrei við upplýsingum. Menn koma aðeins með hótfyndni. (Gripið fram í: Lítið frv.) ,,Lítið frv.,`` segja þeir. ,,Þetta er formbreyting. Af hverju á ekki að verða við beiðni Akureyringa?`` Hvers konar barnaskapur er þetta?

Svo segir enn í þessari grein, með leyfi forseta:

,,Eftir að rafmagnsmarkaðurinn var gefinn frjáls hafa notendur getað skipt um rafmagnsseljendur en þau fyrirtæki sem hafa flesta viðskiptavini eru langt í frá með lægsta rafmagnsverðið.``

Takið eftir þessu: Eftir að rafmagnsmarkaðurinn var gefinn frjáls hafa notendur getað skipt um rafmagnsseljendur en þau fyrirtæki sem hafa flesta viðskiptavini eru langt í frá með lægsta rafmagnsverðið.

,,Það hefur verið einfaldara að fá allt rafmagnsverðið á einum reikningi. Ég fæ sífellt hringingar frá notendum sem segja að þeir hafi ekki hugmynd um hve mikið þeir greiða fyrir rafmagnið. Fólk fær stanslausa reikninga.``

Síðan er vitnað í rafmagnsverð hjá aðskiljanlegum fyrirtækjum. Engu að síður er ein lína svona eins og hjá olíufyrirtækjunum hér á landi um verðlagið. Þau rotta sig saman á hverju hausti, segir talsmaður norska neytendaráðsins. Á ekkert að hlusta á þetta? Hefur enginn áhuga á að hlusta á hvað er að gerast í löndunum í kringum okkur? Og hefur enginn áhuga á að fylgjast með því að í raunveruleikanum eru þessi hlutafélagavæddu orkufyrirtæki í Bretlandi, Frakklandi og víðar, í miklum fjárhagsvandræðum vegna þess að menn eru að braska með hlutafé. Vivendi er dæmi um það. Hlutaféð hefur fallið niður um 80% á einu ári út af braskævintýrum á við þau sem Landssíminn fór í eftir að hann var gerður að hlutafélagi.

Svo er hér önnur grein eftir Kristoffer Egeberg og Ole Henrik Ystehede sem birtist einnig í Dagbladet þennan sama dag, 22. september. Þar var ítarleg umfjöllun um þetta. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Stórframleiðendur rafmagns eru grunaðir um að hafa notað klæki á rafmagnsmarkaðnum til að þvinga fram hærra rafmagnsverð og eru nú til rannsóknar hjá fjármálaeftirlitinu. Stóru rafmagnsframleiðendurnir hafa mesta möguleika á að hækka verðið. Þeir eru ekki margir, rétt handfylli, segir Eirik Bonæs deildarstjóri í markaðsdeild fjármálaeftirlitsins. Hann segir norræna rannsókn á þessu hafa forgang.``

Rannsókn, við höfum aldrei heyrt um hana hér. Hefur ekkert verið rætt um það á samráðsfundum viðskrh. Norðurlanda, um þróunina í raforkumálum og hvaða afleiðingar markaðsvæðingin hefur haft og hvernig eigendur þessara fyrirtækja háfa arðinn út úr þessari starfsemi, svo að vitnað sé í orð talsmanns norska fjármálaeftirlitsins?

Þetta vildi ég nefna í upphafi, herra forseti, til að svara því að þessi formbreyting sem menn kalla og vísa til, formbreyting á orkubúskapnum, er miklu meira en einhver léttvæg, lítilvæg breyting. Hún fjallar um grundvallaratriði. Í stað þess að reka þetta sem þjónustustarfsemi í þágu neytenda og nýta fjármagnið til frekari uppbyggingar eða lækkunar orkuverðs þá er verið að búa til fyrirtæki sem skapar eigendum sínum arð. Ekki segja mér að það standi ekki til að selja þetta, aldrei, að það standi aldrei til að selja þetta. (Iðnrh.: Við ákveðum það ekki.) Við ákveðum það ekki, segir ráðherrann að sjálfsögðu. Það er bæjarstjórnin og þeir sem þar ráða. En það verður gert. (KÓ: Allt í lagi.) Allt í lagi, segir talsmaður Sjálfstfl., allt í lagi. Ég hefði gaman af því að heyra hann, hv. 4. þm. Suðurl., Kjartan Ólafsson, koma hér á eftir og svara þeim rökum sem ég hef sett hér fram fyrst hann segir að það sé allt í lagi að fara inn á þá braut að selja orkuveiturnar. Hann vill ganga lengra. Honum nægir ekki formbreyting hæstv. ráðherra Valgerðar Sverrisdóttur. Hann vill líka selja. Hann vill selja raforkuveiturnar. Og vatnsveiturnar kannski líka? Hvað segir hann þá um þau rök sem ég hef verið að tefla hér fram og þær staðreyndir sem okkur berast frá Noregi, Bretlandi, Frakklandi og víðs vegar að úr heiminum, svo við förum ekki vestur um haf alla leið til Kaliforníu? Eru menn búnir að gleyma Enron-ævintýrinu þar sem leiddi til þess að raforkuverð fór upp úr öllu valdi um gervalla Kaliforníu að undanskilinni einni borg, Los Angeles? Hvers vegna? (Iðnrh.: Það er allt annað.) Rafveiturnar þar voru á vegum samfélagsins, í eigu samfélagsins og reknar á vegum samfélagsins. Allt annað mál, segir hæstv. ráðherra. Það er það í bland vissulega því þar var glæpsamlegt athæfi á ferðinni. En það er ekki allt annað mál að því leyti að þar var orkubúskapurinn rekinn sem bisness þar sem opnað var á fjárfestingar og fjárfestingarævintýri og þar er tenging yfir í Vivendi, British Energy og þessi fyrirtæki sem standa nú höllum fæti vegna nákvæmlega sömu glæfra að þessu leyti.

,,En við erum bara að gera þetta fyrir Akureyringa,`` segir hæstv. ráðherra. ,,Þetta er smámál.`` Það var líka með Suðurnesin, var það ekki, smámál? ,,Við erum bara að gera þetta fyrir Suðurnesjamenn. Það er smámál. Þetta er formbreyting, pínulítil.`` En þetta er annað og meira. Við þurfum að móta okkur --- og þar tek ég undir orð hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar í nefndaráliti hans þar sem hann segir, með leyfi forseta:

,,Enn er á það að líta að áður en ráðist er í breytingar af þessu tagi hefði þurft að liggja fyrir mótuð heildstæð framtíðarsýn í orkumálum landsmanna.``

Ég tek undir þetta. Auðvitað á að byrja á þeim endanum. Auðvitað á ekki að láta reka á reiðanum. Auðvitað eigum við að móta okkur heildstæða sýn. Og varðandi það atriði að þetta sé smámál og snúi einvörðungu að Akureyringum þá fór ég yfir það í gær og ég ætla ekki að endurtaka það hver tengslin eru á milli alþjóðlegra samninga sem Íslendingar eru að gera og breytinga af þessu tagi sem við erum að gera á þjónustustofnunum hér innan lands vegna þess að um leið og við erum búin að fallast á það innan ramma GATT-samninganna að markaðsreglur skuli gilda á vissum sviðum þar sem starfsemin lýtur markaðslögmálum þá skiptir formbreyting af þessu tagi miklu máli. Þá skiptir hún miklu máli vegna þess að þá þurfa fyrirtæki hvers lensk sem þau eru að sæta sömu reglum og lögmálum. Þá þurfa þau að gera það. Þegar við erum búin að fallast á grundvallarreglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar þá skuldbindum við okkur gagnvart þeirri starfsemi sem við höfum einkavætt. Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason hristir höfuðið (GAK: Heyrirðu það?) og tyggur. Hann er kannski að tyggja hundasúrur. Ég veit það ekki. Hann er mikið gefinn fyrir þær. (ÍGP: Á ég að gefa þér?) En þetta er staðreynd. Ég óttast að Íslendingar séu þarna ekki á varðbergi, að við höfum gefið of mikið eftir í samningum á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Ég óttast að við höfum gert það. Reyndar fáum við ekki nægilegar upplýsingar um þetta. Við fáum ekki upplýsingar frá utanrrn. Við erum ekki ein á báti. Það er um allan heim sem svo er, þ.e. að það er lokað á þessa samninga. Við fáum ekki að vita hvaða kröfur hafa verið reistar á hendur Íslendingum í því samningsferli sem nú á sér stað innan GATT. Það eru tvær þjóðir sem hafa reist kröfur á hendur okkur, Bandaríkjamenn og Japanir. En við fáum ekki að vita hvaða kröfur það eru. Við höfum óskað eftir því og utanrrn. hefur neitað að láta þær uppi. Þetta er allt á bak við tjöldin. Svona gerist þetta, að við þurfum að raða saman ákvörðunum sem við erum að taka svona á Akureyri og á Suðurnesjum og á Íslandi almennt og máta þessar ákvarðanir við alþjóðlegar skuldbindingar sem við erum að gera. Þetta á ég við þegar ég segi að þetta er ekkert einkamál Akureyringa eða bæjarstjórn Akureyrar. Þetta skiptir Íslendinga almennt miklu máli. Reyndar er ég á þeirri skoðun að raforkukerfið í landinu eigi að vera heildstætt og þjóna öllum landsmönnum. Ég hefði kosið að það væri á hendi Landsvirkjunar að sjá um virkjanir en síðan færu rafmagnsveiturnar með dreifingu á rafmagninu, þetta væri gert samfélagslega og staðið þannig að því eins og við höfum reyndar gert þegar við höfum byggt upp raforkukerfi okkar. Þá höfum við gert það sem þjóð, sem samfélag.

[13:45]

Ég hef spurt sjálfan mig um það þegar Reykvíkingar hafa talað um að selja sinn hlut í Landsvirkjun. Jú, að forminu til eru hlutir þar eflaust skráðir á Reykvíkinga 45%. Þeir þyrftu að axla ábyrgð gagnvart virkjunarframkvæmdum í landinu í samræmi við eignarhlut sinn. Ég hef ég trú á að það kunni að vera einhver meiri hreyfing á því máli eftir aðkomu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að borgarmálum. Hins vegar er það samfélagið, hvar sem við búum í landinu, sem hefur byggt upp þessa starfsemi, þessa þjónustustofnun sem Landsvirkjun er og við eigum hana öll, allir landsmenn. Þannig eigum við að líta á þessa eign.

Svo ég fjalli áfram almennt um málið þá hef ég af því áhyggjur að með þessu frv. skuli hitaveita og vatnsveita tengd hlutafélaginu. Að vísu er það svo í frv. að hlutafélaginu er falinn reksturinn, ekki eignarhaldið yfir þessari starfsemi, en hún verður engu að síður nátengd þessu nýja félagi sem kemur til með að stjórna orkubúskapnum á Akureyri og víðar. Að tala um að nauðsynlegt sé að gera þetta til að auðvelda fyrirtækinu að athafna sig á markaði, í samvinnu við önnur sveitarfélög eða önnur byggðarlög, er algerlega út í hött. Það eru til önnur rekstrarform, t.d. byggðasamlög eða sameignarfélög. Sú leið opnar auðveldlega á slíka möguleika.

Þeir sem hafa farið út á þessar brautir, að einkavæða orkuveitur og vatnsbúskap, sjá margir mjög eftir því. Ég held að það sé hægri stjórn sem situr í Hollandi. Er það ekki svo? Engu að síður hefur hún lagt til breytingar og lagafrv. með það að markmiði að tryggja hinu opinbera óskorað eignarhald á vatnsveitum til almennrar notkunar. Þar í landi telja menn að einkavæðing vatnsveitna gangi ekki upp þar sem samkeppni verði eðli máls samkvæmt ekki viðkomið. Þar af leiðandi er talið að tryggja beri hér eftir sem hingað til að almennar vatnsveitur verði í höndum hins opinbera. Þetta eru Hollendingar að gera.

Ég hef stundum sagt að það er furðulegt að íslenska ríkisstjórnin, reyndar þær ríkisstjórnir sem hafa setið hér síðan 1991, virðist hafa leitað uppi öll helstu mistök annarra þjóða til að apa þau eftir, leitað í allar helstu mistakasmiðjur heimsins til að flytja mistökin hingað til lands. (KÓ: Þetta er bara miðstýring hjá þér.) Hv. þm. Kjartan Ólafsson, 4. þm. Suðurl., fulltrúi Sjálfstfl. við umræðuna, kallar hér fram í og segir að þetta sé bara miðstýring hjá mér. Ég skil ekki alveg hvert hv. þm. er að fara. Ég er að tala um að tryggja eignarhald almennings, þjóðarinnar, á þessari grunnþjónustu í landinu.

Ég ætla að víkja aðeins að réttindum starfsfólks við þessar breytingar. Ég rek strax augun í það í brtt. sem nú koma fram er ákveðið að slá af stjórn fyrirtækisins, þ.e. að lögbundið sé að í stjórninni sitji tiltekinn fjöldi stjórnarmanna. Það má vel vera að það sé eðlilegt að hlutafélagið sjálft ákveði þetta, enda segir í nál., með leyfi forseta:

,,Eðlilegast er að eigandi fyrirtækisins ákveði sjálfur fjölda stjórnarmanna í samræmi við ákvæði laga um hlutafélög.``

Jú, þetta er það sem gerist. Þetta er það sem gerst hefur hjá Símanum, Pósti og síma, eftir að honum var breytt í hlutafélag. Þar voru allar ákvarðanir lokaðar inni og aðgangur starfsmanna að stjórnkerfi þeirra stofnana verið stórlega takmarkaður. Póstur og sími var það fyrirtæki í landinu, sú stofnun í landinu, sem stóð hvað best hvað þetta snertir, aðkomu starfsmanna að stjórn fyrirtækisins. Þeir sátu í stjórn fyrirtækisins. Ég man ekki hvað sú nefnd hét en þar voru haldnir reglulegir fundir og miðlað upplýsingum. Starfsmenn gátu þar komið sjónarmiðum sínum og áherslum á framfæri. Þessu var að sjálfsögðu öllu slátrað við hlutafélagavæðinguna. Menn taka undir það í nál. meiri hlutans og segja að eðlilegast sé að eigandi fyrirtækisins ákveði sjálfur hvernig þessum málum er hagað. Þetta er bara það sem gerist. Ég vísa aftur í nál. minni hlutans, nál. hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar hvað þetta snertir. Hann segir um hlutafjárvæðinguna, með leyfi forseta:

,,Reynsla kennir að slíkt kemur notendum í koll þegar til lengri tíma er litið auk þess sem skorið er á lýðræðisleg yfirráð yfir grunnþjónustu í samfélaginu með því að breyta þjónustustofnunum í hlutafélög.`` --- Þetta er alveg rétt. Þessi tengsl, þessi bönd, eru slitin í sundur.

Hvað varðar réttindi starfsmanna þá er fjallað um þau í 7. gr. frv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Allir núverandi starfsmenn Norðurorku skulu eiga rétt á störfum hjá hinu nýja fyrirtæki og skulu þeim boðin störf hjá Norðurorku hf., sambærileg þeim er þeir áður gegndu.``

Síðan er komin brtt. við þessa grein sem kemur til með að standa og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Fastráðnir starfsmenn Norðurorku skulu eiga rétt á störfum hjá hinu nýja félagi og skulu þeim boðnar stöður hjá því, sambærilegar þeim er þeir áður gegndu, enda haldi þeir hjá félaginu réttindum sem þeir höfðu þegar áunnið sér.``

Síðan er vísað í biðlaunarétt, sem er mjög mikilvægt að haldi. Ég vil staðnæmast við meirihlutaálitið hvað þetta snertir. Í því segir:

,,Meiri hlutinn leggur áherslu á að við breytinguna haldist áunnin réttindi starfsmanna Norðurorku og jafnframt ávinnsla réttinda samkvæmt gildandi kjarasamningum. Þá telur meiri hlutinn eðlilegt að nýir starfsmenn fái að ráða því í hvaða stéttarfélag þeir kjósa að ganga við nýráðningu eftir formbreytinguna.``

Þarna er talað um áunnin réttindi og ávinnslu réttinda. Þetta skiptir mjög miklu máli. Ég sé að óskir sem hér voru settar fram í gær við umræðuna hafa verið teknar til greina af hv. iðnn. Það er greinilegt að hún hefur lagst sérstaklega yfir réttindi starfsmanna enda er hér staðhæft að þau verði í engu skert, áunnin réttindi standi og ávinnsla réttinda verði virt. Það er vísað í biðlaunarétt og þegar er talað um réttindi eru menn að sjálfsögðu einnig að tala um lífeyrisrétt þeirra sem starfa við fyrirtækið. Menn hafa síðan að sjálfsögðu þær væntingar, þá er ég að tala fyrir sjálfan mig, að þegar fram líða stundir verði öll hin bestu réttindin í boði fyrir nýráðna starfsmenn fyrirtækisins.

Mér er kunnugt um að iðnn. fékk erindi frá Starfsmannafélagi Akureyrar í gærkvöldi og hefur tekið það til skoðunar á fundi sínum í dag. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem koma fram hjá starfsmannafélaginu. Ég tel aðdáunarvert hvernig félagið hefur staðið ötullega að því að reyna að tryggja starfsmönnum réttindi við þessa breytingu sem nýtur því miður meirihlutafylgis á Alþingi.

Mig langar undir lokin að tengja þessa umræðu öðru sem er að gerast á sviði raforkumála. Hér var dreift á borð þingmanna nýju frv. um raforku. Það var líka gert í fyrra. Þá talaði hæstv. viðskrh. fyrir frv. í morgunsárið, daginn sem þinginu var slitið. Ég held að það hafi verið kl. hálffimm. Hún hafði samið um það við þingið að fá að mæla fyrir frv. og aðrir tækju ekki til máls. Hún nýtti sér tímann hins vegar í miklar pólitískar yfirlýsingar og mörgum var mikið mál að fá að taka þátt í þeirri umræðu. En úr því varð ekki. Hér liggur sem sagt annað raforkufrv. á borðum manna. Það vinnst ekki tími til að taka það til umfjöllunar en ljóst er að nauðsynlegt verður að ræða það mjög ítarlega þegar þar að kemur. Það er fagnaðarefni að fá frv. inn til þess að skoða þessi mál.

Ég legg áherslu á mikilvægi þess að taka á orkumálum okkar heildstætt. Það er ekkert einkamál byggðarlags, Akureyrar eða Reykjavíkur, hvernig farið er með þessar dýrmætu eignir okkar. Það er ekkert einkamál Austfirðinga hvað gert er á Austfjörðum. Það er ekki einkamál neins. Það er ekkert einkamál Reykvíkinga hvernig farið er með hlut borgarbúa í Landsvirkjun. Það snertir landsmenn alla. Það eru landsmenn allir sem eiga þessar eignir hvernig svo sem þær eru skráðar. Þar eru sögulegar skýringar að baki.

[14:00]

Í gær ræddum við um samninga við Alcoa. Nú hefur verið send út sameiginleg fréttatilkynning frá Alcoa, iðnrn., Landsvirkjun, Fjarðabyggð og Hafnarsjóði Fjarðabyggðar. Og hvað segir í þessari fréttatilkynningu? Í henni segir, með leyfi forseta, eftirfarandi:

,,Samninganefndir Alcoa og Landsvirkjunar luku í dag við gerð raforkusamnings vegna fyrirhugaðs 322.000 tonna álvers Alcoa við Reyðarfjörð. Á sama tíma var lokið vinnu við samninga á milli Alcoa, ríkisins, Fjarðabyggðar og Hafnarsjóðs Fjarðabyggðar. Lögfræðingar aðila ...`` --- (Iðnrh.: Er þetta eitthvað í sambandi við Norðurorku?) Hæstv. ráðherra kallar hér fram í og spyr hvort þetta sé eitthvað í sambandi við Norðurorku og hvort þetta eigi yfirleitt erindi inn í þessa umræðu. Það er fyrirhugað að slíta þinginu í dag en ég geri mér fyllilega grein fyrir því að hæstv. iðnrh. vill helst enga umræðu um þessi mál, enga. Það er eina áhyggjuefnið við að slíta þinginu að ríkisstjórnin skuli ekki, eftir að þinginu mun hafa verið slitið eða frestað, fá það aðhald sem henni ber. Nú spyr ég hæstv. ráðherra --- af því að þetta tengist vissulega orkumálum í landinu: Verður þinginu ekki gerð grein fyrir þessum samningum? Gefin voru fyrirheit um það á sínum tíma að öllum upplýsingum um raforkusamninga yrði miðlað til þingsins. Eru menn búnir að gleyma þessu? Hvenær á að gera það? Á að gera það áður en þinginu verður slitið í eftirmiðdaginn? Hvenær á að gera það? Hæstv. ráðherra leyfir sér að kalla fram í og spyrja hvað menn vilji upp á dekk með því að vekja athygli á samningi sem þegar hefur verið gerður um raforkuverð til Alcoa. Ég óska eftir því að ríkisstjórnin upplýsi þingið um þessa samninga, hvert þetta raforkuverð er. Nú eru að berast upplýsingar og ásakanir frá aðilum víðs vegar í þjóðfélaginu sem hafa verið að fylgjast með þessum málum mjög grannt um að ríkisstjórnin og Landsvirkjun hafi ekki staðið fagmannlega að þeim. Menn eru jafnvel farnir að spyrja hvort þær forsendur sem byggt var á af hálfu japanska fjármálafyrirtækisins sem var Landsvirkjun til ráðgjafar hafi að öllu leyti verið réttar. Menn eru farnir að spyrja þessarar spurningar og það er synd að þingið skuli fresta störfum sínum því að þetta er umræða sem svo sannarlega á heima hér.

Því hefur verið haldið fram að tölur sem gefnar voru upp í skýrslu Sumitomo hafi verið um 20% lægri en Landsvirkjun áætlaði í raun. Getur þetta verið rétt? Mér finnst að ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra þurfi að svara þessu. Ég mun finna þessu betur stoð, ég byggi þetta ekki á eigin athugun en ég er að vísa í athuganir sem aðilar sem hafa fylgst grannt með þessum málum hafa nú komið á framfæri og mér finnst mjög mikilvægt að fá upplýsingar um þetta.

Ég tók eftir því í sjónvarpsþætti um síðustu helgi að þar sagði Stefán Pétursson, fjármálastjóri Landsvirkjunar, að Landsvirkjun gæfi réttar upplýsingar þegar nauðsynlegt væri. Ég held að það hafi verið orðað einhvern veginn svona. Ég er með þessi ummæli skráð niður. Var e.t.v. ekki nauðsynlegt að gefa Sumitomo réttar upplýsingar? Ég bara spyr. Finnst mönnum þetta vera ábyrgðarlaust tal? Nei.

Ég rakti það við umræðuna í gær hve misvísandi upplýsingar hafa komið frá Landsvirkjun og hæstv. iðnrh. og ríkisstjórninni um þessi mál. Eitt er sagt í dag og annað á morgun. Einn daginn var Norsk Hydro besta fyrirtæki í heimi. Síðan þegar það hafði gengið úr skaftinu var það aldrei traust fyrirtæki. Svona hefur þetta gengið. Einn daginn segir Landsvirkjun að það verði ekki hægt að ganga endanlega til samninga við Alcoa fyrr en allar kostnaðarforsendur liggi fyrir, tilboð í mjög dýra verkþætti hafi verið opnuð og menn hafi gefið sér tíma til að gera rækilega könnun á þeim. Hún hefur ekki farið fram. Og áður en tilboðin voru opnuð var greint frá því að Alcoa-menn væru á leiðinni til landsins og á föstudag yrðu undirritaðir samningar. Hvers konar samningamenn eru þetta eiginlega? Hvers konar handarbakavinnubrögð eru þetta? Einn daginn er sagt að þessi undirritun sem núna eigi sér stað sé ekki endanlegur frágangur og það kann að vera rétt, menn eigi eftir að skoða málin nánar, og í sama orðinu er fullyrt að málið sé fullkomlega frágengið. Formaður Framsfl. sagði það hér um daginn. Svona gengur þetta þvers og kruss. Við eigum eftir að fara mjög rækilega í saumana á þessum málum og þessari gagnrýni og efasemdum sem menn hafa verið að setja fram og ég vona að fjölmiðlar hafi döngun í sér til að kafa í þessi mál og láti ekki hæstv. ráðherra og ríkisstjórn komast upp með endalaust klisjutalið, 14% arðsemi, (Gripið fram í: Er arðsemi?) og síðan þegar farið er að ganga á hæstv. ráðherra, ríkisstjórn og Landsvirkjun er neitað að ræða málin nokkuð frekar. Það er bara klisjan, fullyrðingin, ekkert annað. Ég er búinn að reyna það margoft í þingsalnum, ég reyndi það margoft í iðnn. þegar ég sat þann fund, og sérstaklega í efh.- og viðskn., að fá fram umræðu um þetta, núna síðast í sumar, og það hafði ekki nokkur maður áhuga á því, ekki nokkur maður. Ég man ekki betur en hv. þm. Kjartan Ólafsson, sem hefur blandað sér í umræðuna með frammíköllum, hafi sagt á fundi iðnn. í haust að það væri búið að ræða þetta allt til hlítar. Ég man ekki betur. Þetta eru vinnubrögðin og þetta er sá áhugi sem menn hafa sýnt á þessum málum.

Herra forseti. Það frv. sem við erum hér með til afgreiðslu er ekkert smámál. Þetta er stórt mál og það snertir grundvallarþjónustu. Hæstv. iðnrh. hefur reynt að setja þetta upp í það samhengi að þetta snúi að Akureyringum einum, að við megum ekki vera vond við bæjarstjórn Akureyrar. Við verðum að gera þetta fyrir Akureyringa. Þess vegna þurfum við að afgreiða málið í snarhasti. Þetta mál kom inn á borð til okkar fyrir hvað --- það verður talið í klukkustundum, ætli það sé ekki fyrir svona 40 klukkustundum eða þar um bil, afgreitt með afbrigðum og hraði. Menn náðu varla að lesa frv.

Að lokum vil ég segja að þótt menn óttist að þegar til framtíðar er litið, og aðrir eigendur hugsanlega komnir til sögunnar, felst í því enginn áfellisdómur á núverandi eigendur, það gerir það ekki, en við erum að tala um hvaða afleiðingar þessar breytingar geta haft þegar til lengri tíma er litið og þar höfum við vísað í reynslu annarra þjóða af hlutafélagavæðingu orkuveitna.