Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 15:26:04 (2796)

2002-12-13 15:26:04# 128. lþ. 59.2 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[15:26]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur verð ég að árétta við hv. þingmann að í vegferð sinni til þess að sverta mannorð formanns Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, notar þingmaðurinn þá aðferð, t.d. varðandi sölu á orkufyrirtækjum í Siglufirði, að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi staðið að því. Er ekki staðan sú og muna menn það ekki að það var þáv. iðnrh. Jón Sigurðsson sem stóð að því máli í samsteypustjórn? Það hefur gríðarlega mikið breyst á þeim tíma sem liðinn er. Hlutafélagavæðing samfélagsins sem aðdragandi að einkavæðingu hefst eftir þessa sölu, og þessar veitur á Siglufirði voru afhentar til ríkisrekins fyrirtækis með allt öðruvísi andrúmsloft í kringum sig heldur en nú er. Það er það sem hefur breyst. Ef hv. þm. áttar sig ekki á því hvernig tíðarandinn hefur breyst á þessum 10 árum er hann flæðiskeri staddur, er það ekki?