Samkeppnisstaða háskóla

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 15:37:37 (3698)

2004-02-02 15:37:37# 130. lþ. 54.1 fundur 277#B samkeppnisstaða háskóla# (óundirbúin fsp.), KolH
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[15:37]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vona að hæstv. menntmrh. hafi lög að mæla þegar hún segir að Háskóli Íslands muni ævinlega njóta reynslu sinnar og þeirrar sögu sem hann byggir á. Það er nauðsynlegt að maður finni að stjórnvöld standi vörð um þann þjóðarskóla sem Háskóli Íslands er. En satt að segja virðist hann eiga undir högg að sækja í þeirri umræðu sem fram hefur farið.

Máli mínu til staðfestingar vil ég geta þess að tölur frá Stúdentaráði sem bárust þingmönnum ekki alls fyrir löngu gefa til kynna að Háskólinn í Reykjavík hafi úr að spila 53% hærri fjárhæð á hvern laganema en Háskóli Íslands hefur til umráða. Þarna er verið að leggja saman það sem kemur í gegnum fjárlögin annars vegar og hins vegar í gegnum skólagjöldin. Svo virðist sem stjórnvöld séu að svelta Háskóla Íslands út á þá braut að taka skólagjöld og ég tel að slíkt sé til mikils vansa fyrir stjórnvöld og íslenska þjóð.