Áherslur í byggðamálum

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 15:43:37 (3701)

2004-02-02 15:43:37# 130. lþ. 54.1 fundur 278#B áherslur í byggðamálum# (óundirbúin fsp.), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[15:43]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég kann ekki við að mér sé gert það upp að hafa verið með einhverjar aðdróttanir. Ég hef bara sagt það sem satt er, hvernig þessi mál horfa við mér. Það er alveg ljóst að hæstv. ráðherra og Byggðastofnun hafa ekki gert neinar sérstakar ráðstafanir til að úthlutanir yrðu í takt við það sem í stefnir á landinu og hefur gert um tíma.

Ég hef ekki látið að því liggja að hæstv. ráðherra hafi haft afskipti af þeim úthlutunum sem fram fóru. Ég held því hins vegar fram að hæstv. ráðherra þurfi að grípa öll tækifæri sem möguleg eru til að rétta af þann halla sem í stefnir. Það yrðu auðvitað, ef saman yrði tekið, býsna stórar fjárhæðir sem á vantar á undanförnum árum. Því þarf að taka á og ég hygg að margir séu sammála um það sem hafa fylgst með því hvernig þessum fjármunum hefur verið deilt niður á verkefni.