Breytingar á eignarhaldi í sjávarútvegi

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 16:18:10 (3714)

2004-02-02 16:18:10# 130. lþ. 54.94 fundur 283#B breytingar á eignarhaldi í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), Flm. JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[16:18]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Ég ætla síður en svo að álasa kaupendum að þessum fyrirtækjum Brims og ég óska þeim allra heilla í rekstri þessara mikilvægu sjávarútvegsfyrirtækja. Hinu vil ég vekja athygli á og ítreka að við þessa sölu voru teknir nærri 3 milljarðar króna út úr þessu fyrirtæki án þess að nokkuð hafi verið lagt inn í það á móti. Á nokkurra daga eign Landsbankans á þessu fyrirtæki voru hirtir nærri 3 milljarðar króna og það eru óábyrg vinnubrögð, og það er rán að mínu mati. Þetta tel ég að hæstv. sjútvrh. hafi ekki skilið til fulls þegar hann kom í ræðustól og gat litlu svarað nema lauslegum vangaveltum um þessi mál án þess að geta leitt hugann nokkuð að því sem brennur á þessum atvinnuvegi og þjóðinni allri.

Það gerir hins vegar útgerð Guðmundar Runólfssonar í Grundarfirði. Í Fréttablaðinu 23. janúar sl. segir framkvæmdastjórinn, Guðmundur Smári Guðmundsson, með leyfi forseta:

,,,,Gróðafíknin, sem lýsir sér í því að ná sem mestum hagnaði á sem skemmstum tíma, skaðar fyrirtækin þegar til lengri tíma er litið. Hugmyndafræði excel-kynslóðarinnar um hagræðingu og sameiningar og að leggja niður sem flest fyrirtæki í kringum landið gengur að okkar mati ekki upp,`` segir Guðmundur Smári.

Hann segir að miklu ráði hagur Grundarfjarðar og fjölskyldan hafi viljað forðast að fyrirtækið lenti í höndum þeirra sem fyrst og fremst hugsuðu um skammtímagróða.

,,Við vildum ekki að fyrirtækið lenti inni í ferli sem við réðum ekkert við,`` segir Guðmundur Smári.`` --- Enn fremur segir hann að að sjálfsögðu þurfi að vera arður af veiðum og vinnslu en það sé ekki síður mikilvægt að störfin haldist í heimabyggð, ótrufluð af excel-kynslóðinni.

Virðulegi forseti. Það er virkilegt áhyggjuefni að fyrirtæki hvert af öðru skuli hlaupa eins og fætur toga ef þau mögulega geta út af hlutabréfamarkaðnum til að verða ekki gleypt af viðskiptabönkum sínum.