Erfðafjárskattur

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 17:19:55 (3729)

2004-02-02 17:19:55# 130. lþ. 54.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[17:19]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað spyrja menn eftir þeim loforðum sem gefin voru í kosningunum. Það er nauðsynlegt fyrir stjórnarandstöðuna að vita hvað er fram undan hvað varðar skattalækkanir. Ég hef hins vegar sagt það áður hér í ræðustól að ég trúi því ekki að ef menn þurfa að velja á milli þess að standa við loforð um skattalækkanir og standa við yfirlýsingarnar um ábyrgð í fjármálum ríkisins þá velji þeir ekki síðari kostinn þegar þar að kemur. Ég trúi ekki öðru.

Ég tel ekkert óeðlilegt við að menn fái upp á borðið hvað er fram undan þannig að hægt sé að ræða um það og fara nákvæmlega yfir það. Þannig gætu menn gert sér grein fyrir þeim vandamálum sem hugsanlega væru fram undan og séð skýrt hvaða afleiðingar verða af þeim skattalækkunum sem menn hafa lofað. Þetta finnst mér mikilvægt og tel þess vegna að það þurfi að spyrja grimmt eftir fyrirætlunum um skattalækkanir, spyrja ríkisstjórnina í þaula um það, til þess að þessi umræða geti farið fram og menn lendi ekki í einhverjum ógöngum þegar kemur að því að ákvarðanir verða teknar um skattalækkanir, að þá hafi ekki verið farið nákvæmlega yfir það hverjar afleiðingarnar muni verða. Til að geta valið á milli þess að svíkja annað hvort loforðið verða menn auðvitað að vita hver niðurstaðan verður.