Erfðafjárskattur

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 17:34:27 (3733)

2004-02-02 17:34:27# 130. lþ. 54.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[17:34]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Margt af því sem hæstv. ráðherra sagði er góðra gjalda vert og ég skil þann hugsanagang sem hæstv. ráðherra beitir þegar hann er að færa rök fyrir því að fella eigi brott þær undanþágur sem ég hef nú heldur mælt fyrir að verði áfram haldið í lögunum. Ég geri ráð fyrir því að Samf. muni bera fram breytingartillögu við lögin sem einmitt miði að því.

Herra forseti. Í tilefni þeirra ummæla sem hv. þm. Gunnar Birgisson viðhafði hér fyrr í dag langar mig til þess að varpa spurningu til hæstv. ráðherra. Hv. þm. Gunnar Birgisson er einn af trúnaðarmönnum ríkisstjórnarinnar í efh.- og viðskn. og hlýtur auðvitað að tala af þekkingu og nokkru viti þegar hann ræðir hér um að það eigi að fara í skattalækkanir í tengslum við þá kjarasamninga sem núna eru hafnir. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Er það svo að fyrir utan þá skattalækkun sem felst í því frv. sem við hér ræðum sé ríkisstjórnin að áforma að bjóða skattalækkanir af einhverju tagi í tengslum við þá kjarasamninga sem nú eru byrjaðir?