Fjárhagsvandi Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 10:50:28 (3889)

2004-02-05 10:50:28# 130. lþ. 57.95 fundur 296#B fjárhagsvandi Háskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), KJúl
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 130. lþ.

[10:50]

Katrín Júlíusdóttir:

Virðulegi forseti. Á Háskóla Íslands hvíla miklar skyldur. Hann ber þær skyldur að bjóða sem breiðast akademískt nám, við gerum þær kröfur til hans. Háskóli Íslands er ekki sérhæfður háskóli með þröngt námsframboð. Þaðan koma fræðimenn okkar á sviðum eins og íslensku, raungreinum, tungumálum og stærðfræði, svo að einungis örfáar greinar séu nefndar.

Háskóli Íslands er sameign þjóðarinnar sem við gerum miklar kröfur til að bjóði nám á breiðum vísindalegum grunni. Þessi sérstaða er ekki viðurkennd af stjórnvöldum og því þarf Háskóli Íslands að klípa fjármagn af stærri deildum eins og lagadeild og viðskiptadeild til að standa undir kostnaði við þær minni. Þetta er óviðunandi staða, nema það sé framtíðarstefna stjórnvalda að leggja niður nám í greinum eins og til að mynda stærðfærði, guðfræði og íslensku á háskólastigi. Það þarf að líta á þessar skyldur Háskóla Íslands þegar fjárframlög eru ákveðin. Það þarf að líta á hlutina í samhengi. Vanda minni deilda og skora verður einfaldlega að mæta með sértækum aðgerðum.

Virðulegi forseti. Áður hefur verið vitnað til orða hæstv. menntmrh. í Fréttablaðinu þann 18. janúar sl. þar sem hún hélt því fram að Háskóli Íslands væri ekki blankur. Því verð ég að spyrja hæstv. menntmrh.: Vissi hún ekki að á árunum 2001--2003 var ekki greitt með samtals 590 nemendum sem stunduðu nám við Háskóla Íslands? Það er staðreynd, hv. þm. Dagný Jónsdóttir.

Ég spyr líka ráðherrann: Vissi hún ekki að ekkert samræmi er á milli launastikunnar í reiknilíkani ráðuneytisins og raunkostnaðar skólans vegna launa?

Vandi Háskóla Íslands er augljóslega mikill og blasir við öllum þeim sem það vilja sjá, og fyrirsjáanlegt er að verði sömu stefnu fylgt á vandinn enn eftir að aukast. Fjárhagsvandinn verður ekki leystur með skólagjöldum. Við þurfum framtíðarsýn í menntamálum, ekki reddingar fyrir horn.