Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 15:59:30 (4028)

2004-02-10 15:59:30# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., JBjart
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[15:59]

Jónína Bjartmarz:

Frú forseti. Ég vil eins og síðasti ræðumaður, hv. þm. Birkir J. Jónsson, þakka umræðuna sem farið hefur fram og vil líka fyrir mitt leyti taka undir efni þessarar ágætu till. til þál.

Eins og komið hefur fram bæði hjá hv. þm. Birki J. Jónssyni og Kristni H. Gunnarssyni má ekki taka úr samhengi í umræðunni annars vegar forsendur öflugs velferðarkerfis og hins vegar sterkt, öflugt og blómlegt atvinnulíf. Þetta er það sem við framsóknarmenn lögðum alla áherslu á í aðdraganda síðustu kosninga. Við lofuðum jú skattalækkunum, en ekki það miklum að það stefndi velferðarkerfinu í hættu. Þvert á móti lögðum við áherslu á að skattar mættu ekki lækka svo að við hefðum ekki borð fyrir báru til að standa vörð um og efla velferðarkerfið.

[16:00]

Það eru annars vegar almennar aðgerðir sem við þurfum og hins vegar skattalækkanir, blómlegt atvinnulíf og svo þessar sértæku aðgerðir sem hér hefur líka borið á góma í þessari ágætu umræðu.

Mig langar aðeins til að nefna ákveðin atriði eins og afnám skatts á húsaleigubætur, hækkun örorkubóta til yngstu öryrkjanna, lækkun skerðingarhlutfalls tekna á bætur öryrkja á öllum aldri og ýmsar aðrar sértækar aðgerðir sem þessi ríkisstjórn hefur staðið fyrir. Og hugsunin er sú að koma til móts við mismundandi þarfir og aðstæður tiltekinna hópa í samfélaginu.

Það er ýmislegt í umræðunni sem vekur mann til tiltekinnar umhugsunar. Í þessari tillögu er jú lagt til að skipa eigi nefnd. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hafði mörg orð um það í dag að tími nefnda og skýrslna væri liðinn, nú væri komið að aðgerðum. Tillagan gengur eftir sem áður út á það að skipa skuli nefnd sem geri tillögur og setji þær fram í skýrsluformi.

En þegar maður skoðar forsendurnar þá er fyrst og fremst í þessari tillögu vísað í skýrslu sem ASÍ lét vinna --- og ég ætla að fá að taka það fram af því að hv. þm. Kristinn Gunnarsson gerði það fyrr í dag að gefnu tilefni að ég var ein þeirra þingmanna stjórnarflokkanna sem sátu þá ágætu ráðstefnu ASÍ og lagði þar vel við hlustir og lærði töluvert --- en í skýrslunni er vísað fyrst og fremst í ástæður fátæktar sem ASÍ bendir á. Og það eru þær sem hafa valdið mér tiltekinni umhugsun og íhugun meðan þessi umræða hefur farið fram en ein ástæðan sem þeir tiltaka er skortur á menntun, m.a. mikið brottfall úr framhaldsskólum og það telja þeir vera ástæðu fátæktar. Af þessu má að hluta til skilja að ástæðan fyrir brottfalli úr framhaldsskólum sé fyrst og fremst fátækt.

Þá vil ég nefna það að gerðar hafa verið tvær athuganir fræðimanna við Háskóla Íslands á því hverjar orsakir brottfallsins eru og ég minnist þess ekki að fátækt eða efnahagslegar aðstæður hafi verið talið þar sem ástæða nema hjá tiltölulega mjög litlum hópi. Svo er annað mál að þeir sem falla út úr framhaldsskólanum og fara út á vinnumarkaðinn eru yfirleitt ekki hálaunamenn. Það eru þeir sem eru með lægstu tekjurnar í samfélaginu. Og ef ég man rétt, sem ég tel mig gera, þá var síðast þegar ég fór yfir það hvernig listi yfir atvinnulausa var samsettur, alla vega á höfuðborgarsvæðinu, þá var það unga fólkið á aldrinum 16--24 ára sem var þar langfjölmennast. Og þá spyr ég: Er ekki ástæða til að leggja áherslu á einhverjar aðgerðir sem geta dregið úr brottfalli úr framhaldsskólanum?

Svo er annað mál að þetta unga fólk, sem kannski er með í laun 80--90 þús. kr. á mánuði --- þetta þurfum við líka að íhuga í tengslum við þær kröfur sem við mörg gerum um að atvinnuleysisbætur séu hækkaðar af því að atvinnurekendur segja að vandinn sé sá með margt af þessu unga fólki að hvatann til að vinna vanti vegna þess að það sé svo lítill munur á þessum launum og atvinnuleysisbótunum --- og við erum þá stundum að tala um ungt fólk sem býr heima hjá sér og hefur ekki fyrir neinum að sjá. En í þessu samhengi vil ég á hinn bóginn taka það fram að það er allur munur á aðstæðum þessa unga fólks og þeirra sem hafa fjölskyldu sem þeir þurfa að framfæra, og taka undir það líka sem kom fram fyrr í dag í máli hæstv. félmrh. að ein af ályktunum flokksþings framsóknarmanna er einmitt sú að huga að hækkun atvinnuleysisbóta og jafnvel tekjutengingu þeirra.

Við verðum aðeins að skoða samhengið þarna og það er alveg ótrúleg einföldun í málinu að segja: Það er brottfall úr framhaldsskóla og það er fátækt sem veldur því. Það eru ýmsar aðrar ástæður sem við verðum að skoða og liggja þar á bak við. Ég hef ekki orðið vör við það hjá stjórnarandstöðunni að hún hafi tiltölulega miklar áhyggjur af þessu brottfalli, alla vega hef ég ekki séð nein þingmál sem miða að því eða gera neinar tillögur um það hvernig dregið skuli úr því.

Annað sem mig langaði að nefna, og er nefnt hér sem helstu ástæður fátæktar, er hátt verðlag á nauðsynjavörum og líka á lyfjum og heilbrigðisþjónustu. Það er nýkomin út skýrsla eftir Rúnar Vilhjálmsson sem ég hef ekki náð að lesa til hlítar, hins vegar kemur m.a. fram í þeirri skýrslu, að mér er sagt, að innan við helmingur þeirra sem rétt eiga á endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þar um frá Tryggingastofnun eða ráðuneytinu vegna lágra launa, endurgreiðslu kostnaðar vegna lyfja og lækniskostnaðar, nýtir það. Og ég spyr mig hvers vegna. Það getur verulega bætt kjör þeirra sem eru við þau tekjumörk og eiga rétt á endurgreiðslu samkvæmt reglugerð.

Aðstæður og kjör einstæðra feðra, þeirra sem greiða meðlög, eru líka nefnd þarna. Og það hefur komið fram í upplýsingum frá Félagsþjónustunni í Reykjavík að þeir eru tiltölulega fjölmennasti hópurinn sem leitar aðstoðar þangað. Í því samhengi langar mig að nefna þau úrræði sem menn hafa hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga og nokkurra ára gamla reglugerð sem heimilar það að samið sé við þá sem eru í þessum sporum til að gera þeim kleift að standa skil með því að lækka greiðslubyrði þeirra mánaðarlega og það er líka heimild til að fella niður vexti og jafnvel höfuðstólinn til lengri tíma litið. Reynsla mín af þessu úrræði, sem ég hef tekið að mér í öðru hlutverki en ég stend hér í, er ákaflega góð. Og ef menn standa í skilum gerir þetta þeim kleift að gera það og jafnvel að stofna aðra fjölskyldu eða búa við betri aðstæður en þeir gera fyrir.

Úrræðin eru því ýmis og í svona umræðu er kannski ekki síður tilefni til þess að vekja athygli á þeim og að menn nýti þau af því þetta er hluti af öryggisnetinu sem þessi ríkisstjórn hefur komið á sem ætlunin er að virki sem sértæk úrræði gagnvart sérstökum hópum í samfélaginu.

En ástæðan til þess að ég blandaði mér inn í þessa umræðu var kannski fyrst og fremst ræða hv. þm. Atla Gíslasonar, ágæt jómfrúrræða hans sem ég vil þakka fyrir, þar sem mér fannst hann halda því fram að ástæða fíkniefnaneyslu unglinga og ungmenna í dag lægju fyrst og fremst í fátæktinni. Og af því ég hef sérstaklega kynnt mér þau mál og unnið í slíku forvarnastarfi mörg undanfarin ár hefði ég hug á því að inna hv. þm. aðeins nánar eftir þessu, af því að ég vil halda því fram að fíkniefnaneysla og fíkniefni fari ekki í neitt manngreinarálit. Ég hef hvergi séð nokkrar skýrslur sem renna stoðum undir það að börnum sem búa við fátækt sé hættara við því að leiðast út í fíkniefnaneyslu en öðrum börnum.