Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 16:12:40 (4030)

2004-02-10 16:12:40# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[16:12]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þm. Atli Gíslason sagði með réttu voru það orð hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem voru tilefni þess að hann kom hér í ræðustól. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er ekki í þessum umgangi í aðstöðu að svara fyrir orð sín eða skýra þau nánar.

En ég vil, eins og ég gerði í upphafi ræðu minnar áðan, leggja áherslu á það sem var einkennandi fyrir stefnu okkar framsóknarmanna að við vildum lækka skatta og gera það í tengslum við gerð næstu kjarasamninga og leggja alla áherslu á að hækka lægstu laun. Vil vildum ekki lækka skatta svo mikið að það stefndi velferðarkerfinu í voða. Þess vegna stingur það mig alltaf þegar ég heyri hv. þingmenn Vinstri grænna sýknt og heilagt fetta fingur út í stefnu framsóknarmanna, sem vilja þó standa vörð um velferðarkerfið, en ekki þeirra sem lögðu alla áherslu á að lækka skattana mun meira og verja til þess miklu hærri fjárhæðum en við lögðum áherslu á. En það er svo annað mál.

Það sem ég vildi koma inn á var það sem hv. þm. vék að í upphafi orða sinna vegna athugasemda minna við það að hann væri að leiða að því líkur að það væri samhengi á milli fátæktar og fíkniefnaneyslu því engar skýrslur hafa sýnt fram á að svo sé og enginn þeirra aðila sem hafa fjallað um þetta. En hv. þm. kom í máli sínu einmitt að því sem ég vil meina að sé mergurinn málsins, það er hvernig við búum að börnum í grunnskólanum. Og hann benti á það með réttu, og það sem ég vil taka hér fram er að kennarar og aðrir sem starfa í gegnum grunnskólann, segja margir að þeir sjái það strax í fyrstu bekkjum grunnskólans hver áhættuhópurinn er. Þeir hafa ekki sérstaklega nefnt þá sem búa við bág kjör efnahagslega en þeir nefna sérstaklega ung börn sem eru að byrja í skóla og þjást af ýmsu, eins og t.d. ýmiss konar þroskafrávikum og fötlunum, og sálfræði- og sérfræðiþjónustan í grunnskólanum er ekki nógu öflug til að taka á þessum vandamálum.