Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 16:24:26 (4034)

2004-02-10 16:24:26# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., BJJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[16:24]

Birkir J. Jónsson (andsvar):

Frú forseti. Við deilum sömu hugsjónum hvað það varðar, ég og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson, að við viljum útrýma fátækt í íslensku samfélagi.

Ég kem hér upp vegna orða hv. þingmanns áðan um umtalaðan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu sem virðist vera eins og hver önnur klisja sem stjórnarandstaðan talar um á hinu háa Alþingi og úti í samfélaginu. Það er ekki niðurskurður í íslensku heilbrigðiskerfi. Við erum að verja nú, stjórnvöld, 10 milljörðum kr. meira á árabilinu 2003--2004 til heilbrigðis- og tryggingamála. Þetta er hækkun upp á 10% á milli ára. Og ég fullyrði að aukning á framlögum til velferðarmála í íslensku samfélagi um 10% á milli ára, til heilbrigðis- og tryggingamála, hefur aldrei verið jafnmikil og í tíð núverandi ríkisstjórnar, enda árar vel í íslensku samfélagi. Alltaf má samt gera betur. Ég tek undir það.

Mér finnst ekki rétt af hv. þingmönnum að gera lítið úr því sem vel er gert í íslensku samfélagi. Það er nýbúið að hækka mjög myndarlega lífeyri yngstu öryrkja upp í 126 þús. kr. á mánuði. Ég vil hér spyrja hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hvort hann deili ekki þeim hugmyndum með mér að það sé mjög mikilvægt að hækka lágmarkslaunin, sem eru rétt rúmar 90 þús. kr. í dag, mjög myndarlega í þeim kjarasamningum sem fram undan eru. Ég veit að það ríkir mikil fátækt hjá mörgum launamanninum, sérstaklega á landsbyggðinni, sem hefur jafnvel ekki nema rétt rúmar 90 þús. kr. í mánaðarlaun.