Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 16:40:20 (4039)

2004-02-10 16:40:20# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[16:40]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta með hið stórhækkaða framlag til heilbrigðismála hef ég ákveðnar efasemdir um. En það er staðreynd að framlag til heilbrigðismála er nú miklu meira en það var fyrir tíu árum og margfalt meira en það var fyrir 20 árum þannig að við megum ekki einblína á krónutöluna eina. Við verðum að horfa til þeirrar þjónustu sem verið er að veita. Það er staðreynd að verið er að rýra hana og draga úr henni. Það er staðreynd eins og hér var bent á við umræðuna að til stendur að loka Arnarholti. Þar eru 40 geðsjúklingar sem vita ekki hvað bíður þeirra. Verið er að svipta fjölfatlaða stoðþjónustu í Kópavogi í tengslum við Landspítala -- háskólasjúkrahús. Það er verið að draga úr og rýra þjónustuna innan þessarar stofnunar.

Meginröksemd mín var þessi: Það er erfiðara að vera tekjulítill á Íslandi í dag en það var fyrir fáeinum árum áður en Framsóknarflokkurinn komst hér til valda. Þetta er sú stóra spurning sem (Gripið fram í.) talsmenn Framsóknarflokksins verða að svara vegna þess að við erum að ræða hér um stjórnvaldsaðgerðir. Við erum að ræða um lyfjakostnað. Við erum að ræða um sjúklingagjöld og heilbrigðisþjónustuna. Við erum að ræða um húsnæðiskostnaðinn.

Hv. þm. nefndi að atvinnuleysisbætur væru of lágar. Hann er sammála mér um að svo sé. Þær eru 79.767 kr. í mánuði hverjum. Þetta er ekki há upphæð. Hann segir að hæstv. ráðherra vilji hækka þessa upphæð. Ég man ekki betur ... (Gripið fram í: ... trúað því?) Ég man ekki betur en til stæði hér fyrir jól að rýra hana, að rýra þessa upphæð (BJJ: Kom fram frv. um það?) um einar 10 þús. kr. Það var talað fyrir því. Hins vegar urðu mótmæli, bæði utan úr samfélaginu, frá verkalýðshreyfingunni og frá stjórnarandstöðunni á þingi, til þess að menn hrukku til baka með þessa skömm, með þetta skammarlegasta frv. sem fram hefur komið á Alþingi í seinni tíð.