Búvöruframleiðslan og stuðningur við byggð í sveitum

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 17:45:58 (4049)

2004-02-10 17:45:58# 130. lþ. 61.16 fundur 166. mál: #A búvöruframleiðslan og stuðningur við byggð í sveitum# þál., HBl
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[17:45]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er ekki undarlegt þó að málefni landbúnaðarins beri á góma og heldur ekki undarlegt þó að hv. 5. þm. Norðaust., Steingrímur J. Sigfússon, ríði þar á vaðið, gamall landbúnaðarráðherra sem markaði á sínum tíma nýja stefnu í málefnum sauðfjárbænda sem ég hygg að hafi verið á margan hátt skynsamleg, en því miður hafi verið horfið frá þeim grundvallarsjónarmiðum sem mörkuð voru með búvörusamningnum 1991, nefnilega að stefna að því að byggja sauðfjárræktina upp á þeim grundvelli að hún dygði fyrir neyslu innan lands, en á hinn bóginn yrði farið gætilega í það að stækka bústofninn og auka framleiðsluna í von um það að markaðir fyrir dilkakjöt við viðunandi verði næðust erlendis.

Við sjáum í hvaða far þessi mál eru komin nú. Það er auðvitað erfitt að takmarka framleiðslu á dilkakjöti og því miður varð reyndin sú á síðustu missirum að einstök fyrirtæki tóku að bjóða framleiðslu bænda á verði sem ekki dugði fyrir framleiðslukostnaði með þeim afleiðingum að óviðunandi ástand varð hér á kjötmarkaði og ýmsir bændur urðu að sætta sig við það að fá ekki afurðir sínar greiddar, sem þeir höfðu ekki ráð á. Landbúnaðurinn gefur ekki svo mikið af sér að menn megi við því að svo og svo mikið af framleiðslu þeirra hverfi í hít illa rekinna fyrirtækja og verði gjaldþrotum að bráð. En þannig hefur það verið undanfarið að ekki hefur náðst jafnvægi á kjötmarkaðnum og má segja að þar hafi mörg fyrirtæki verið rekin með halla ár eftir ár með þeim afleiðingum m.a. að sláturhús hafa verið lögð niður, eins og á Austurlandi, og með þeirri afleiðingu enn fremur að þeir sem enn eru að berjast á þessum markaði geta ekki fagnað því að hafa viðunandi afkomu. Auðvitað er óhjákvæmilegt að reyna að glöggva sig á því hvernig hægt sé að bregðast hér við.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. þegar hann talar um að óhjákvæmilegt sé að reyna að glöggva sig á þeim atvinnutækifærum öðrum sem til greina kæmu í strjálbýli. Ég vil þó sérstaklega vekja athygli á því að ferðaþjónustan á einstaka stöðum á landinu ætti að geta gefið viðunandi árstekjur ef rétt er að henni staðið. Ég vil halda því fram að óhjákvæmilegt geti verið að efla dreifbýlustu héruð landsins með því að greiða nokkuð niður stofnkostnað í t.d. hótelum svo við tökum dæmi í Norður-Þingeyjarsýslu. Eftir að vegur er kominn í Öxarfjörð með bundnu slitlagi þá hygg ég að það gæti mjög lyft þeim strjálbýlu og fátæku héruðum sem þar eru. Ef t.d. heitt vatn yrði lagt í Ásbyrgi ef nokkur stofnstyrkur yrði lagður fram til þess að byggja þar upp gestamóttöku, og ef gæsla þjóðgarðsins þar og annars staðar raunar um landið yrði falin heimamönnum eða þeim sem gæfu sig fram til að starfa í byggðinni sem yrðu þá um leið heimamenn þegar þeir hefðu sest þar að.

Öll slík umsvif sem tengjast eðlilegum rekstri þjóðgarða, sem reknir eru á grundvelli þess að þeir geti verið paradís fyrir ferðaþjónustu, eiga um leið að vera lyftistöng fyrir þá sem þar eru að berjast við að geta framfleytt sér og sínum, því eins og við vitum er ástandið þannig nú að flestir sauðfjárbændur þurfa að afla tekna utan búsins, utan heimilis til að lifa af. Þetta þekkjum við og þetta vitum við, og það er nauðsynlegt að horfast í augu við það.

Jafnframt vil ég taka undir það sem hv. þm. sagði að rétt sé að reyna að glöggva sig á því hvort hægt sé að breyta hinum framleiðslutengda styrk í svæðisbundinn styrk þannig að menn reyndu að ná samkomulagi um það hvaða héruð það eru í landinu sem þeir vilja sjá fyrir sér sem sérstök sauðfjárræktarhéruð og hvar menn telji á hinn bóginn að ekki sé ástæða til þess að styðja sérstaklega við slíkan rekstur. Því að auðvitað vitum við það að Ísland án búskapar yrði fátæklegt land og lítið skemmtilegt að ferðast um það. Sauðfjárræktin er hluti af okkar sögu, okkar þjóðmenningu, og okkur ber að reyna að finna leiðir til þess að þeir sem vinna við þá atvinnugrein, leggja sig fram og vinna sín verk vel, geti haft viðunandi afkomu. Ég vil að því leyti taka undir það sem segir í tillögu hv. þm. þó að ég á hinn bóginn sé ekki trúaður á þá leið að nefnd, skipuð fulltrúum allra flokka, geti leyst vandamál eins og þetta. Má kannski segja að það sé eðlilegt að þar sem ég er í meiri hluta hér á Alþingi þá sé ég trúaður á að rétt sé að meiri hlutinn beri ábyrgð á slíkum tillögum og reyni að fylgja þeim fram. En ég er sammála um að það þurfi að horfa á þessi mál frá nýjum sjónarhóli og taka þau öðrum tökum en verið hefur um leið og ég tek undir með hv. þm. að það hefur ýmislegt gerst úti um land sem gefur tilefni til bjartsýni og ástæðulaust sé af þeim sökum að vera með nokkurn gráttón. En kjarni þess sem ég vil segja er að við eigum að leggja meiri áherslu á það að styrkja vegakerfið og afla fjár sem gæti orðið stuðningur fyrir þá sem vilja hefja nýjan atvinnurekstur í sveitum.