Þjóðarleikvangurinn í Laugardal

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 12:00:47 (4143)

2004-02-12 12:00:47# 130. lþ. 63.8 fundur 493. mál: #A þjóðarleikvangurinn í Laugardal# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[12:00]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Ég tel að við hæstv. menntmrh. getum átt samleið í íþróttunum, bæði í að styðja okkar sameiginlegu lið og takast á þegar um það er að ræða.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra hafi ekki með öllu neitað að skoða þessa hugmynd og ætli að hlusta á sína menn í viðræðunefndinni sem nú er að störfum. Hins vegar vonaðist ég eftir betri undirtektum. Auðvitað er það þannig að sveitarfélögin byggja upp íþróttamannvirki fyrir sig sjálf. Þau fá reyndar stundum stuðning ríkisins til þegar sérstakar ástæður eru taldar til þess. En í Reykjavík gegnir öðru máli. Þar er verið að byggja upp íþróttamannvirki fyrir alla þjóðina. Uppbygging Laugardalsvallarins er auðvitað kjarnamál í því efni.

Hin beina spurning sem vaknar við þetta er sú: Voru loforð fyrrverandi menntmrh., sem er úr sama flokki og núverandi hæstv. ráðherra, bara kosningatrikk eða lýstu þau raunverulegri stefnu í menntamálum af hálfu þess flokks og þeirrar ríkisstjórnar sem þessir ráðherrar sitja í? Ef ríkið á að leggja fram til Vetraríþróttamiðstöðvarinnar á Akureyri er það gert á þeim forsendum að hún njóti sérstöðu sem, hvað eigum við að segja, þjóðarvetraríþróttamiðstöð. Á sama hátt á Laugardalurinn, sérstaklega Laugardalsvöllurinn, að njóta þeirrar sérstöðu.

Það er ekki ást á íþróttum og áhugi á þeim góðu áhrifum sem þær geta haft á land og þjóð sem er á bak við það að standa á móti samstarfi við Reykjavíkurborg og Knattspyrnusambandið í þessu tilviki, um að byggja myndarlega upp á Laugardalsvelli.