Rafræn stjórnsýsla

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 14:54:35 (4205)

2004-02-12 14:54:35# 130. lþ. 63.23 fundur 554. mál: #A rafræn stjórnsýsla# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[14:54]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Frú forseti. Hæstv. ríkisstjórn og hið háa Alþingi hafa samþykkt mjög metnaðarfulla áætlun um rafræna stjórnsýslu. Hugsunin á bak við þessa metnaðarfullu áætlun er að færa Ísland og íslenskt samfélag inn í 21. öldina, jafna aðgengi landsmanna að stjórnsýslunni og ekki síst að stuðla að auknum sveigjanleika í viðskiptum og atvinnulífi. Þessu ber að fagna. Þetta eru háleit markmið, enda hygg ég að ríkt hafi almenn sátt um það innan þings sem í samfélaginu öllu.

En svo sem vænta mátti verður Róm ekki byggð á einni nóttu og hefur í sjálfu sér gengið misjafnlega að hrinda þessum áformum í framkvæmd. Fyrr í dag var verið að svara fyrirspurn þess eðlis, nokkuð almenns eðlis, og komu þar fram ýmsir ágætir þættir sem hefur verið stuðlað að.

Frú forseti. Ýmsar undirstofnanir dómsmrn. sérstaklega snerta afskaplega mikið viðskipti og á ég þar ekki síst við þinglýsingar sem eru snar þáttur í öllu viðskiptalífi. Nú heyri ég það hjá ýmsum bæði fyrirtækjum og stofnunum sem hafa viljað koma á slíkum rafrænum samskiptum og rafrænum viðskiptum, rafrænni stjórnsýslu að hjá einstökum stofnunum, ekki síst sýslumannsembættum, hafi gengið nokkuð hægt að koma slíku á.

Þar sem þinglýsingar og veðbókarvottorð og því um líkt er drjúgur hluti af öllum viðskiptum í landi voru, vil ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. hvaða áherslur hann muni setja í sínu ráðuneyti og á hvaða sviði þá? Nú er hæstv. dómsmrh. einmitt þekktur að því að fylgjast afskaplega vel með á þessu sviði og hefur nýtt sér það og kannski verið að ákveðnu leyti í fararbroddi af okkur pólitíkusunum á þessu sviði. Ég beini því þessari fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. á hvaða sviðum og með hvaða hætti hann sjái fyrir sér að rafræn stjórnsýsla muni eiga sér stað innan dómsmrn.