Heilsugæsla í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:19:52 (4626)

2004-02-25 14:19:52# 130. lþ. 72.2 fundur 239. mál: #A heilsugæsla í framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:19]

Björgvin G. Sigurðsson:

Herra forseti. Það er ástæða til að hrósa hv. fyrirspyrjanda fyrir þær góðu hvatir sem að baki fyrirspurninni liggja. En um leið beinir hún sjónum okkar að öðru stóru vandamáli innan menntakerfisins, því himinháa brottfalli sem er úr íslenskum framhaldsskólum og má fullyrða að sé eitt stærsta einstaka vandamál íslensks menntakerfis í dag. Í því ljósi hlýtur að vera mjög mikilvægt að ungmenni í framhaldsskólum hafi mjög greitt aðgengi að öflugri og skipulegri heilsugæslu í sínum skólum og auðvelt að leiða að því líkum að góð heilsugæsla, sýnileg, sem bókstaflega laðar ungmenni í vanda til sín gæti komið að verulegu leyti í veg fyrir hluta af því brottfalli sem um er að ræða í framhaldsskólunum.

Menn hafa ekki náð tökum á því vandamáli sem brottfallið er og þeirri undarlegu staðreynd að brottfall úr framhaldsskólum er langhæst í íslenskum skólum samanborið við Norðurlönd og önnur Evrópulönd. Það hlýtur að vekja okkur til vitundar um hve mikilvægt er fyrir ungmenni á þessu viðkvæma aldursskeiði þar sem lítið þarf út af að bregða til að fólk hrökkvi úr gírnum og flosni upp úr því sem það er að gera, að halda þeim ungmennum við nám sem í því eru og þetta getur verið mikill liður í því.