Heilsugæsla í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:24:39 (4629)

2004-02-25 14:24:39# 130. lþ. 72.2 fundur 239. mál: #A heilsugæsla í framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:24]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hefur farið fram og það er góð ábending að kanna hvort tilvist heilsugæslu í framhaldsskólum hefur áhrif á brottfall nemenda, hvort hægt sé að nálgast sannleikann í því.

Ég hygg að það sé almennt mikill fengur að því að greina vanda nemenda eins fljótt og kostur er.

Varðandi börn með geðraskanir í skólum höfum við verið að huga sérstaklega að þeim málum hvernig hægt er að samræma kraftana í málefnum geðsjúkra barna og unglinga eða barna með geðraskanir. Við höfum ráðið sérstakan verkefnisstjóra sem hóf störf rétt eftir áramótin til að fara yfir þessi mál og skoða hvernig hægt er að samræma kraftana varðandi þessi mál, en það koma fleiri aðilar þar að, skólayfirvöld, félagsmálayfirvöld og fleiri.

Vandamálið með málefni barna og unglinga með geðraskanir er að það eru mjög margir aðilar sem koma að þeim málum. Það er brýn þörf á því að sameina þá krafta.

Ég þakka þá umræðu sem hefur farið fram og það er góð hugmynd að fara nánar yfir það hvort tilvist heilsugæslu innan skólanna dregur úr brottfalli úr skólum.