Kostnaðarhlutdeild sjúklinga

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:40:55 (4636)

2004-02-25 14:40:55# 130. lþ. 72.3 fundur 516. mál: #A kostnaðarhlutdeild sjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:40]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hér fer fram ákaflega athyglisverð umræða. Hæstv. heilbrrh. viðurkennir að útgjöld sjúklinga hafi hækkað verulega. Það kom fram í svari hans áðan. Það er mjög mikilvægt að hann svari því hvort það sé meðvituð, yfirveguð stefna ríkisstjórnarinnar að hækka útgjöld sjúklinga. Þau eru greinilega komin að hættumörkum.

Fjórði hver sjúklingur sem talað var við af tvö þúsund manna úrtaki hætti við eða frestaði för til læknis. Fjöldi manns tekur ekki út lyfin sín. Tannlæknaþjónusta er orðin svo dýr að ungt fólk fer ekki til tannlæknis. Það á eftir að hafa alvarlegar afleiðingar. Endurgreiðslukerfið og afsláttarkerfið er svo flókið að margt fólk sem er veikt þekkir það ekki eða getur ekki nýtt sér það. Það verður auðvitað að taka á því.

Svo vil ég nefna eitt til viðbótar, varðandi krabbameinssjúklinga. Hvaða stefna er það að láta krabbameinssjúklinga sem fara í lyfjameðferð borga fyrir meðferðina á spítalanum á meðan krabbameinssjúklingar sem fara í geislameðferð fá hana ókeypis? Það ríkir algjört stefnuleysi í þessum málum.