Búsetuúrræði fyrir geðfatlaða

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:59:39 (4644)

2004-02-25 14:59:39# 130. lþ. 72.4 fundur 242. mál: #A búsetuúrræði fyrir geðfatlaða# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:59]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Það má lesa út úr þessari spurningu að hún eigi e.t.v. fyrst og fremst við um einstaklinga sem nú dveljast í Arnarholti og Kópavogi. Ég tel að upplýsingar sem hæstv. ráðherra gaf hér um að stefnt væri að markvissri búsetuþjónustu séu mjög mikilvægar. Það þarf að koma á samræmdri þjónustu og teymisvinnu við útskrift þeirra einstaklinga sem nú eru í Arnarholti og Kópavogi.

Ég tel að ábyrgð á þessum einstaklingum og rekstrinum sé á hendi hæstv. heilbrrh. Ég tel einnig að því miður verði alltaf til í þjóðfélaginu einstaklingar sem verði svo illa farnir, sama hversu vel við komum fyrir markvissri búsetuþjónustu, að þeir eigi hvergi betur heima en í þjónustukjörnum eins og Kópavogur og Arnarholt eru í dag. Við þurfum að horfa til þess að styrkja þá þjónustu en ekki leggja hana af.