Selir

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 15:11:40 (4651)

2004-02-25 15:11:40# 130. lþ. 72.6 fundur 469. mál: #A selir# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[15:11]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Hér er í fyrsta lagi spurt: ,,Hvaða skuldbindingar hafa Íslendingar samkvæmt alþjóðlegum samningum varðandi verndun sela við Ísland?``

Því er til að svara að alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um verndun sela felast fyrst og fremst í Bernarsamningnum um vernd tegunda dýra og plantna og búsvæða þeirra í Evrópu og almennum ákvæðum samningsins um líffræðilega fjölbreytni.

Bæði landselur og útselur eru í III. viðauka Bernarsamningsins um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu sem Ísland fullgilti árið 1993. Í 7. gr. þess samnings segir, með leyfi forseta:

,,1. Sérhver samningsaðili skal gera viðeigandi og nauðsynlegar lagalegar og stjórnarfarslegar ráðstafanir til að tryggja verndun villtra dýrategunda sem tilgreindar eru í viðauka III.

2. Hafa skal stjórn á allri nýtingu villtra dýra sem tilgreind eru í viðauka III svo að stofnum þeirra sé eigi hætta búin, með tilliti til ákvæða 2. gr.

3. Meðal annars skal gera eftirfarandi ráðstafanir:

a) Viðhafa tímabundið veiðibann og aðrar aðgerðir sem hafa stjórn á nýtingunni,

b) banna nýtingu um ákveðinn tíma eða á ákveðnum svæðum, eftir því sem við á, til að koma stofnum í viðeigandi horf,

c) hafa, eftir því sem við á, stjórn á sölu, geymslu vegna sölu, flutningi vegna sölu og framboði lifandi og dauðra villtra dýra.``

Hæstv. forseti. Bæði landselur og útselur eru og nefndir í ályktun Bernarsamningsins, nr. 6, um tegundir sem þarfnast sérstakra búsvæðaverndar. Aðildarlöndum ber að taka tillit til þessara tegunda við gerð verndarsvæða í Evrópu, svokallaðra Emerald-svæða, sem eru net náttúruverndarsvæða í Evrópu. Sé tegundin algeng og ekki sé ástæða til sérstakra friðunaraðgerða vegna þess þurfa aðildarlöndin hins vegar ekki að grípa til slíkra ráðstafana. Tegundirnar eru ekki á viðaukum CITES eða á listum IUCN yfir tegundir í útrýmingarhættu á heimsvísu.

Í samningnum um líffræðilega fjölbreytni frá 1992 sem Ísland fullgilti 1995 segir í 8. gr. staflið c, með leyfi hæstv. forseta:

,,Hver samningsaðili skal, eftir því sem hægt er og viðeigandi, stýra eða stjórna líffræðilegum auðlindum sem mikilvægar eru fyrir vernd líffræðilegrar fjölbreytni hvort sem er innan eða utan verndaðra svæða í þeim tilgangi að tryggja vernd þeirra og sjálfbæra notkun.``

Í staflið d í 8. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Stuðla ber að vernd vistkerfa, náttúrulegra búsvæða og viðhaldi lífvænlegra tegundastofna í náttúrulegu umhverfi.``

Samningurinn kveður hins vegar ekki á um friðun ákveðinna tegunda eins og Bernarsamningurinn heldur skal það metið eftir ástandi viðkomandi tegunda.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: ,,Telur ráðherra að aðgerðir stjórnvalda til eyðingar selum samræmist framangreindum skuldbindingum miðað við stöðu og þróun selastofna hér við land?``

Því er til að svara að ég kannast ekki við að stjórnvöld standi fyrir eyðingu sela. Selir njóta ekki almennrar verndar að íslenskum lögum þar sem ákvæði svonefndra villidýralaga nr. 64/1994 ná ekki til sela eða hvala. Grunnlög um selveiðar eru enn tilskipun um veiðibann 1849, með breytingum frá 1990, sem leggja bann við skotveiðum á landsel eða útsel á fjörðum eða víkum, þar sem látur eru eða lagnir, nær en hálfa sjómílu frá þeim. Selir á Breiðafirði eru verndaðir gegn skotveiðum með sérlögum um selaskot á Breiðafirði og uppidráp, nr. 30/1925. Lög nr. 29/1937 kveða hins vegar á um útrýmingu sela úr Húnaósi og í lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, eru ákvæði um ófriðun sels, en í 82. gr. laganna segir að rétt sé að skjóta eða styggja sel í veiðivatni og í ósi þess eða ósasvæði, enda sé eigi öðruvísi mælt í lögum.

Það er því ljóst að þau lög sem gilda um seli hér á landi mæla ekki fyrir um eyðingu hans enda miða þær aðgerðir sem gripið hefur verið til að því að fækka sel eða halda honum í skefjum.

Þegar til úrskurðar kom á kæru vegna Kárahnjúkavirkjunar í umhvrn. voru selamálin skoðuð sérstaklega og alveg ljóst að virkjunin getur haft áhrif á selastofnana en það var ekki talið að það væri þörf á sérstökum aðgerðum, hvorki á héraðsvísu né landsvísu af þeim ástæðum.