Selir

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 15:18:20 (4653)

2004-02-25 15:18:20# 130. lþ. 72.6 fundur 469. mál: #A selir# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[15:18]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef kom það til umræðu á sínum tíma hvort selir og hvalir ættu að vera undir villidýralögunum, (Gripið fram í.) og það varð ekki, já, eins og hér kemur fram, þannig að ákvæðin falla þar ekki undir. Hins vegar eru ákveðin ákvæði sem falla undir lög sem tilheyra öðrum ráðuneytum eða ráðherrum eins og í silungs- og laxalögunum, og svo er Hafrannsóknastofnun auðvitað með rannsóknarskylduna gagnvart þeim dýrategundum sem eru í sjó. En eins og kom fram í svari mínu áðan teljum við stöðuna hjá þessum stofnum vera slíka að ekki þurfi að grípa til einhverra sérstakra verndaraðgerða þannig að þessi mál eru í þokkalegum farvegi að okkar mati.

Varðandi hringormanefndina er hún ekki á forræði stjórnvalda, eins og kom líka fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, og mér skilst að umsvifin hjá þeirri nefnd hafi frekar farið minnkandi, ef ég hef fengið réttar upplýsingar. (Gripið fram í.) Þessar tegundir eru því ekki í útrýmingarhættu og þær eru ekki á viðaukum hvorki CITES né IUCN yfir tegundir í útrýmingarhættu þannig að við höfum ekki séð ástæðu til þess að grípa til sérstakra aðgerða.