Veiðar og rannsóknir á túnfiski

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 15:20:19 (4654)

2004-02-25 15:20:19# 130. lþ. 72.7 fundur 492. mál: #A veiðar og rannsóknir á túnfiski# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að varpa fram nokkrum ítarlegum spurningum til hæstv. sjútvrh. sem varða túnfisk.

Túnfiskur eða öllu heldur bláuggatúnfiskur er í hópi 30 túnfisktegunda sem synda um Norður-Atlantshafið. Þetta eru víðförlir stofnar samkvæmt skilgreiningum alþjóðlegra samninga og bláuggatúnfiskurinn sem gengur inn í efnahagslögsögu Íslands gengur t.d. líka inn í efnahagslögsögu Tyrklands. Það er til marks um það hversu víða hann fer yfir.

Túnfiskurinn er ákaflega verðmætur fiskur og fæst hátt verð fyrir hann. Ég sé í honum ákveðin sóknarfæri fyrir íslenskan sjávarútveg. Ég geri mér að vísu grein fyrir því að hann verður aldrei verulega sterk stoð undir sjávarútvegi en hann gæti hins vegar bætt nokkuð í bú okkar.

Hingað hafa á undanförnum árum komið japönsk skip til veiða samkvæmt sérstöku leyfi sem sjútvrh. getur veitt samkvæmt lögum nr. 13/1992. Þessar veiðar sem Japanir hafa stundað hér hafa verið gerðar í samvinnu við Hafrannsóknastofnun sem hefur haft mannskap um borð til þess að fylgjast með þeim.

Ég hef varpað fram spurningum um það hvernig staða rannsókna á tegundinni er, því til þess að okkur takist að gera okkur mat úr þessari merkilegu tegund þarf rannsóknir. Þorsteinn Pálsson, þáv. sjútvrh., sagði hér í umræðum árið 1998 að fyrir dyrum stæði að hefja rannsóknir á göngu og útbreiðslu túnfisks. Í svari sama ráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar árið 1998 sagði að Hafrannsóknastofnun hefði í tilefni af Ári hafsins kynnt viðamiklar rannsóknir í Suðurdjúpum sem ættu m.a. að beinast að útbreiðslu vannýttra tegunda eins og túnfisks sem var sérstaklega nefndur.

Nú hafa nokkrar útgerðir reynt með einhverjum hætti að draga verðmæti úr djúpum hafsins með því að veiða túnfisk og hugsanlega ekki haft erindi sem erfiði. Undirstaða slíkra veiða hljóta að vera rannsóknir og þess vegna hef ég leyft mér að beina eftirfarandi fjórum spurningum til hæstv. ráðherra:

Hvaða rannsóknir hafa Íslendingar gert á bláuggatúnfiski frá 1996? Benda þær til þess að túnfiskveiðar gætu orðið arðvænlegar fyrir íslenskar útgerðir? Hafa rannsóknirnar leitt í ljós hvað veldur mismiklum göngum inn í íslensku efnahagslögsöguna? Hafa Íslendingar fengið kvóta með aðild sinni að Alþjóðatúnfiskveiðiráðinu og ef svo er, hvernig hafa þeir nýtt sér hann?