Fölsuð myndverk

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 13:54:40 (5085)

2004-03-10 13:54:40# 130. lþ. 81.1 fundur 476. mál: #A fölsuð myndverk# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[13:54]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Frú forseti. Á síðustu árum hefur komið upp hér á landi ákaflega stórt málverkafölsunarmál. Því var haldið fram í Ríkisútvarpinu að það væri eitt umfangsmesta fölsunarmál á sviði myndlistar í Evrópu. Ef mig brestur ekki minni voru velflestir gömlu íslensku meistaranna fórnarlömb þessa máls. Rannsóknin sem hrundið var af stað leiddi í ljós að hér var um skipulagða glæpastarfsemi að ræða sem tengdist raunar nafntoguðu galleríi hér á landi en teygði anga sína líka út fyrir landsteinana. Þessari rannsókn lauk með niðurstöðu dóms þar sem færðar voru sönnur á að 41 myndverk væri falsað og líkur voru leiddar að því að sama gilti um 60 önnur verk sem rétturinn fjallaði um.

Þar að auki má geta þess að menn í myndlistargeiranum telja að umfang falsananna hafi verið miklu meira. Sá maður sem kom fyrstur auga á að mikið var af fölsunum í umferð, Ólafur Ingi Jónsson forvörður, leiddi fram tiltölulega sannfærandi rök að því að hér kynni að vera um fast að 900 verk að ræða. Það reiknaði hann út frá því hversu mikið skyndilegt framboð varð allt í einu af tilteknum listamönnum sem ekki höfðu áður verið mikið í umferð á málverkamarkaðnum.

Til samanburðar get ég þess, frú forseti, að Listasafn Íslands hefur yfir að ráða 10 þús. verkum þannig að hér eru hugsanlega ansi mörg verk í umferð. Mér finnst ekki ólíklegt að á næstu árum eigi frekari dómar eftir að ganga og fleiri verk að koma í ljós sem sannanlega eru fölsuð. Þá vaknar spurningin: Hvað á að gera við þessi verk? Ágætt fólk hefur í góðri trú greitt fyrir þau og telst því væntanlega handhafar myndanna. Hins vegar greiða menn líka höfundaréttargjöld af myndverkum og í því felst þá viðurkenning á að listamaðurinn eigi líka sjálfstæðan rétt sem tengist myndverki sem annar einstaklingur eða stofnun á þó eignarréttinn að. Fölsun á verki myndlistarmanns hlýtur því að fela í sér skerðingu á þessum rétti listamannsins. Þá er ótalinn sá réttur sem skiptir hann líka máli, svokallaður sæmdarréttur listamannsins. Það lagalega hugtak er til í íslenskum rétti og ég leyfi mér, virðulegi forseti, að vísa til 2. mgr. 4. gr. höfundalaga, nr. 73/1972:

,,Óheimilt er að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi, að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni.``

Því vaknar spurningin: Á að eyða þessum verkum? Til þess er ekki til heimild í íslenskum lögum og því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hyggst ríkisstjórnin beita sér fyrir því að samkvæmt lögum verði heimilað að eyða fölsuðum myndverkum?