Heimagerðar landbúnaðarafurðir

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 14:32:14 (5105)

2004-03-10 14:32:14# 130. lþ. 81.3 fundur 674. mál: #A heimagerðar landbúnaðarafurðir# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[14:32]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari umræðu. En síðustu vikurnar hef ég einhvern veginn staðið í þeirri meiningu að ég væri að einangrast, væri einn haldinn sveitarómantík og sæi fyrir mér fjölskyldubú. Nú finn ég að þingið er fullt af þessu fólki sem styður mig í þessari stefnumótun (JBjarn: Hefur alltaf verið ...) og fyrir það vil ég þakka sérstaklega. Ég er nú að miða við þá umræðu sem hefur verið í fjölmiðlum af hálfu alls konar frjálshyggjumanna og manna sem virðast vilja hafa landbúnaðinn í stórum verksmiðjum.

Við verðum auðvitað að passa okkur á að fara ekki að eins og skáldið sagði:

  • Læknarnir bregðast lýðsins vonum
  • og leggja á ráðin einskis nýt
  • í stað þess að segja sjúklingunum
  • að sitja heima og éta skít.
  • Þetta var nú ort á Húsavík í gamla daga. (Gripið fram í: Er heilbrrh. samþykkur?) (Gripið fram í.) Þá voru menn að fara akkúrat út í þessa umræðu um að þetta væri allt orðið of gerilsneytt og heilbrigðisvænt. (Heilbrrh.: Á að vera heilbrigðiskerfi?) Við finnum það ... Hæstv. heilbrrh. sér hér líka rómantík og tekur þátt í þessari umræðu utan úr sal og fagna ég því.

    Ég þakka þessa umræðu. Ég hef sett þessa nefnd af stað og sannarlega finn ég að þingið stendur með mér í því. Við skulum sjá hvað framtíðin ber í skauti sér. Við þurfum að hafa gott samráð við hæstv. heilbrrh. um málið, hæstv. umhvrh. og auðvitað ríkisstjórnina alla og þingheim.

    En ég vil leggja áherslu á þetta sem hér hefur komið fram, gamli góði íslenski maturinn er ,,in`` í dag. Unga fólkið þráir að kynnast honum og meistarakokkar landsins eru tilbúnir að leggja bændum landsins mikið lið og hafa gert á síðustu árum í matvælagerð. Svo auðvitað blasir við að hér er vaxandi hiti og því er spáð að hér muni hitna veðráttan. Byggið vex. Kannski rætast draumar um vínframleiðslu og bjórframleiðslu. Ég veit það ekki. En það felast miklir möguleikar fyrir íslenska (Forseti hringir.) bændur, hæstv. forseti, í þjónustu við íslenska neytendur hvort sem það er búgrein eða aukabúgrein.