Lokuð öryggisdeild

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 15:03:52 (5122)

2004-03-10 15:03:52# 130. lþ. 81.5 fundur 597. mál: #A lokuð öryggisdeild# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það er alls ekkert undarlegt við það að þetta mál sé tekið upp í þriðja sinn og ef á þarf að halda munum við gera það í fjórða sinn á þessu þingi, vegna þess að við þurfum að fara að fá svör. Nú eru liðin hátt í tvö ár frá fyrstu yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar um að málefni alvarlega geðsjúkra yrðu leyst og það hefur ósköp einfaldlega ekkert gerst. Ég efa það ekki að öflugasta geðdeildin og breiðasta fagþekkingin er á Landspítalanum -- háskólasjúkrahúsi og eðlilegt að hæstv. ráðherra leiti sér ráðgjafar þar.

En ég minni á að á Sogni hafa alvarlega geðsjúkir, sem ekki hafa hlotið dóm og hvergi nokkurs staðar hefur verið hægt að koma fyrir í þessu þjóðfélagi, verið vistaðir. Þegar Landspítalinn -- háskólasjúkrahús hefur ekki treyst sér til að taka þessa einstaklinga inn, hefur fagfólk á Sogni gert það og jafnvel þó það hafi þurft að þrengja verulega að starfsemi sem fyrir er. Miðað við að þarna lágu fyrir teikningar um breytingar sem hægt var að gera á húsnæðinu með tiltölulega litlum kostnaði, upp á 29 millj. kr., hefði verið hægt að leysa málið strax ef gengið hefði verið í það. En því miður hefur það ekki verið gert. Enn er beðið eftir svörum fagfólks á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi sem þessa dagana er í óðaönn að finna út hvernig það getur skorið niður starfsemina sem þar er í gangi. Ef 25,8 millj. kr. eiga að fara til Landspítalans til að sinna þessari starfsemi, vita allir hv. þm. að það er hvergi nærri nóg.