Húsnæði réttargeðdeildarinnar að Sogni

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 15:20:01 (5130)

2004-03-10 15:20:01# 130. lþ. 81.6 fundur 598. mál: #A húsnæði réttargeðdeildarinnar að Sogni# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr mig hvaða sýn ég hafi varðandi málefni Sogns. Ég hef ætíð álitið Sogn mjög mikilvæga stofnun sem hefur ákveðið hlutverk. Það var skilgreint á sínum tíma sem heimili fyrir ósakhæfa afbrotamenn. Það eru engin áform um að breyta því.

Ég tel einnig að Sogn hafi hlutverk við læknisþjónustu við fanga á Litla-Hrauni og hana þyrfti að efla. Ég tel að það geti fallið að starfsemi Sogns áfram eins og það gerir reyndar núna. Ég leyni því ekkert að ég tel að þeir sem vinna að þessum erfiðu málum þurfi að hafa samstarf. Ég hefði álitið það heppilegt. Sogn hefur samstarf við geðdeild Landspítalans en ég tel að það þurfi að vera traust.

Varðandi viðhaldið og upphæðirnar. Ég get nefnt sem dæmi að 31 millj. fer í viðhald á öllum heilsugæslustöðvum í landinu samkvæmt tillögum til fjárlaga á síðasta ári, 23 millj. til viðhalds sjúkrastofnana, þannig að þetta eru ekki miklar upphæðir. Að vísu fara 248 millj. til viðhalds Landspítala -- háskólasjúkrahúss, 25 millj. til viðhalds á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og 311 millj. til stofnkostnaðar í öllum heilbrigðisstofnunum landsins utan stóru spítalanna.