Skuldastaða þjóðarbúsins

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 15:36:42 (5138)

2004-03-10 15:36:42# 130. lþ. 81.94 fundur 396#B skuldastaða þjóðarbúsins# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Matsfyrirtæki og erlendar efnahagsstofnanir hafa ítrekað beint sjónum að miklum erlendum skuldum Íslands, ekki síst skammtímaskuldum. Þó ríkissjóður og Seðlabankinn hafi bætt stöðu sína að undanförnu, sem er vel, hafa aðrir aðilar safnað gríðarlega auknum skuldum, heimilin, atvinnulífið og sveitarfélögin. Þjóðarbúið í heild er skuldugra en nokkru sinni fyrr. Hreinar erlendar skuldir náðu 100% af landsframleiðslu á árinu 2001. Erlendar skuldir alls eru á annað þúsund milljarða króna og vaxandi.

Skuldir heimilanna á Íslandi eru einhverjar hinar mestu í heimi. Helst eru það Danir og Hollendingar sem eru jafnokar okkar í þeim efnum. Skuldir heimilanna við lánakerfið voru áætlaðar um 820 milljarðar í lok árs 2003, eða rúmlega 180% af ráðstöfunartekjum. Þessi hlutföll voru 20% 1980, 80% 1990, 140% 1998 og áætluð 180% um síðustu áramót eins og áður sagði. Hraði skuldaaukningar heimilanna er nú vaxandi á nýjan leik.

Skuldir atvinnulífsins eru miklar, t.d. sjávarútvegsins, og eignabreytingar þar á undanförnum mánuðum hafa þýtt tugi milljarða í viðbótarskuldsetningu. Aðilar sem eru að losa fé sitt og færa annað eru keyptir út fyrir milljarðatugi og greitt er að uppistöðu til með erlendum lánum. Skuldir sjávarútvegsins eru nú í nágrenni við 200 milljarða kr.

Í árslok 2002 námu skuldir íslenskra fyrirtækja annarra en fjármálafyrirtækja tæplega einni og hálfri landsframleiðslu sem eru meiri skuldir en í nokkru öðru landi samkvæmt sambærilegum gögnum. Sem sagt heimsmet, og síðan hefur staðan farið versnandi.

Mikil útlánaþensla hefur verið að undanförnu og vekur það víða áhyggjur. Sérstaka athygli vekur bréf Seðlabankans til innlánsstofnana frá 18. desember sl. í þessu sambandi. Þar segir m.a.:

,,Meginniðurstaðan er sú að áhyggjur sem bankastjórnin lýsti á fundunum`` --- þ.e. fundum með bönkunum --- ,,einkum af hröðum vexti útlána og mikilli erlendri fjármögnun til skamms tíma, voru fyllilega tímabærar. Með bréfi þessu ítrekar bankastjórn Seðlabankans þessar áhyggjur.

Vöxtur innlendra útlána hefur aukist hratt undanfarna mánuði. Í heild jukust útlán innlánsstofnana á 12 mánuðum til loka október sl. um 16% sem er meira en samrýmst getur stöðugleika verðlags og efnahagslífs til frambúðar. Nærtækt er að líta til áranna 1998 til 2001 og afleiðingar mikils útlánavaxtar sem átti sér þá stað. Vanskil og útlánatap jukust í kjölfarið og um tíma þrengdi að erlendri fjármögnun banka og sparisjóða.``

Enn segir:

,,Áhættuálag á grunnvexti útlána hefur nú lækkað það mikið að það endurspeglar ekki lengur möguleg útlánatöp. Það gengur ekki til lengdar. Bankastjórn Seðlabanka Íslands vonar að lánastofnanir hafi lært af sögunni og sýni varfærni við útlánaákvarðanir.

Viðskiptabankar og sparisjóðir hafa í auknum mæli fjármagnað starfsemi sína með erlendum lánum og námu þau í lok nóvember rúmum 700 milljörðum króna. Tæpur helmingur þessarar fjárhæðar fellur í gjalddaga á tímabilinu til loka nóvember nk. þannig að endurfjármögnunarþörf bankanna verður afar mikil á næsta ári`` --- þ.e. þessu sem er að líða.

,,Bankastjórn Seðlabanka Íslands ítrekar áhyggjur sínar af þessari þróun og endurfjármögnunaráhættunni sem þetta skapar fyrir íslenska fjármálakerfið. Aðvörunarorð hafa borist víðar að. Má þar nefna Fjármálaeftirlitið og greiningardeildir banka.``

Að þessu samanlögðu er ekki að ósekju að spyrja hæstv. forsrh., yfirmann Seðlabankans, sem ábyrgur er fyrir yfirstjórn efnahagsmála í ríkisstjórn, eftirfarandi spurninga:

1. Hvernig metur forsrh. þróun erlendra skulda og greiðslustöðu þjóðarbúsins í ljósi mikillar útlánaþenslu í formi innstreymis erlends lánsfjár með breytilegum vöxtum að undanförnu? Hvað hefur forsrh. að segja um aðvaranir sem birtust í bréfi Seðlabankans til innlánsstofnana í desembermánuði sl. en urðu ekki opinberar fyrr en síðar?

2. Hvernig metur forsrh. þá þróun að íslensk heimili séu í auknum mæli að taka erlend lán með veðsetningu í bílum eða húsnæði svo sem nú er raunin?

3. Hver er staða heimilanna og atvinnulífsins, svo sem sjávarútvegsins, til að mæta skyndilegri gengislækkun og/eða vaxtahækkun í ljósi mikilla beinna og óbeinna skulda?

4. Telur forsrh. koma til greina að gera úttekt á þolmörkum íslenskra banka og fjármálastofnana gagnvart breytingum sem orðið gætu á vöxtum og öðrum lánskjörum, gengi gjaldmiðla eða öðrum þáttum sem máli skipta, með sérstakri hliðsjón af mikilli endurfjármögnunarþörf bankanna á næstu mánuðum?