Svæðisútvarp

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 18:58:33 (5177)

2004-03-10 18:58:33# 130. lþ. 81.13 fundur 668. mál: #A svæðisútvarp# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JGunn
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[18:58]

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson):

Herra forseti. Ríkisútvarpið, útvarp okkar allra, rekur tvær útvarpsrásir sem ná til þorra landsmanna. Þessu til viðbótar rekur Ríkisútvarpið svokölluð svæðisútvörp sem leggja þá áherslu á svæðisbundnar útsendingar, oft í tiltölulega skamman tíma á degi hverjum. Svæðisútvarp á hverjum stað fjallar þá yfirleitt um málefni sem skipta viðkomandi svæði talsverðu máli á hverjum tíma og er vettvangur fyrir svæðistengd skoðanaskipti og áherslur. Það er skoðun mín að þessi þjónusta Ríkisútvarpsins sé af hinu góða og ekki hef ég heyrt nema ánægju frá þeim svæðum sem þessarar þjónustu njóta af hálfu þessarar ríkisstofnunar sem við jú öll greiðum til sama afnotagjaldið.

Það er akkúrat í framhaldi af þessum punkti sem ég fór að velta fyrir mér hvernig staðið væri að vali þeirra staða eða svæða sem njóta þessarar þjónustu, hvort ekki væru til gagnsæjar og skýrar reglur um hvernig velja skuli hvaða svæði skal sinna á þennan máta og að vel væri gætt að jafnræði allra til sömu þjónustu af hálfu ríkisins.

Þegar ég var að brjóta um þetta heilann rifjaðist upp fyrir mér að fyrir allmörgum árum var rekin útvarpsstöð á Suðurnesjum sem hét Útvarp Bros. Þegar séð var fram á endalok þess rekstrar var gengið í það verk að reyna að fá Ríkisútvarpið til að hefja rekstur svæðisútvarps sem kæmi þá í stað þessarar útvarpsstöðvar sem góð reynsla hafði verið af. Sveitarstjórnarmenn á þessum tíma ásamt mörgu öðru góðu fólki reyndu allt sem mönnum kom í hug til að sannfæra ráðamenn útvarpsins um að það væri alveg bráðsnjallt að hefja rekstur svæðisútvarps á Suðurnesjum. Allt kom fyrir ekki. Engu tauti varð komið við þá sem réðu og ekkert útvarp leit dagsins ljós.

Það er sagt að sagan endurtaki sig alltaf. Ekki veit ég neitt um það en hitt veit ég að fyrir nokkru kom upp sama staða í Árborg. Þar hafði verið rekin sjálfstæð útvarpsstöð á svipaðan hátt og Útvarp Bros hafði verið rekið á Suðurnesjum. Þar kom að útvarpsstöðin í Árborg hætti rekstri en þá tók Ríkisútvarpið öðruvísi á málum en verið hafði á Suðurnesjum allmörgum árum fyrr og hóf þegar rekstur svæðisútvarps á staðnum.

Ég vil taka það fram til að fyrirbyggja allan misskilning að ég tel að Ríkisútvarpið eigi að halda áfram að reka öflug svæðisútvörp á þeim stöðum þar sem það er gert nú og vona að íbúar þeirra svæða njóti þeirra sem lengst en ég væri ekki alveg heiðarlegur ef ég segði ekki að ég öfundaði þá af þjónustunni. Það er von mín að Ríkisútvarpið skoði nú í fullri alvöru að rekið verði svæðisútvarp bæði í Árborg og á Suðurnesjum og stuðli þannig að því að færa íbúana innan hins stóra og víðfeðma Suðurk. þéttar saman með svæðistengdri umfjöllun um kjördæmið allt. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Á hversu mörgum stöðum rekur Ríkisútvarpið svæðisútvarp og hverjir eru þessir staðir?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að svæðisútvarp verði starfrækt á Suðurnesjum?

3. Ef svo er, hvenær má vænta þess að slík stöð hefji útsendingar?