Varnir gegn mengun hafs og stranda

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 15:17:07 (5250)

2004-03-11 15:17:07# 130. lþ. 82.5 fundur 162. mál: #A varnir gegn mengun hafs og stranda# (heildarlög) frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Ég er ekki sammála síðasta hv. ræðumanni. Ég tel að umhvrn. hefði getað undirbúið þetta mun betur, sérstaklega miðað við að þetta var í þriðja sinn sem frv. var lagt fram.

Undanfarnar tvær eða þrjár vikur hafa farið fram, að vísu slitrótt en þó í ákveðinni samfellu, umræður á þinginu um löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið, tengsl þessara tveggja, um starfshætti Alþingis og ýmis önnur mál sem varða þetta. Það var t.d. athyglisvert þegar hæstv. landbrh. kom í stólinn um daginn vegna umræðna um frv. um yrkisrétt og í ljós kom að honum hafði ekki tekist að skilja það sjálfur áður en hann lagði fram á þinginu. Ráðherrann lýsti því áliti sínu á þinginu að nefndir þess ættu að taka sig til og lagfæra alls konar tæknileg atriði, orðalagsmál, ýmsar skyssur og vitleysur sem frumvarpsgjafanum hefðu orðið á.

Ég er ekki sammála þessu. Ég tel að frv. sem menn koma með í þingið, hvort sem það eru stjórnarfrumvörp eða þingmannafrumvörp, eigi að vera eins tæknilega fullkomin og mögulegt er. Til þess höfum við þingmenn á að skipa mjög traustum starfsmönnum í þinginu sem reyna að bjarga okkur þegar við erum komin í dellu, og mér finnst lágmarkskrafa til ráðuneytanna að frv. sem þau koma með séu tæknilega vel undirbúin þannig að við þingmenn getum tekið til þeirra þá pólitísku afstöðu sem við erum kjörnir til en þurfum ekki að vera tæknimenn í margvíslegum skrýtnum fræðigreinum og ekki heldur prófarkalesarar og málsfarsleiðréttingarmenn.