Útgáfa bókarinnar Forsætisráðherrar Íslands

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 13:46:24 (5400)

2004-03-17 13:46:24# 130. lþ. 85.1 fundur 583. mál: #A útgáfa bókarinnar Forsætisráðherrar Íslands# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[13:46]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Fyrirspurn sú til hæstv. forsrh. sem nú skal svarað er sett fram vegna tilkynningar á heimasíðu sem Júlíus Hafstein hefur komið upp vegna hátíðahalda ríkisstjórnarinnar á þessu ári í tilefni 100 ára afmælis heimastjórnar. Þar kom fram í ársbyrjun að síðasti liður í dagskrá Júlíusar Hafsteins á þessu ári væri útgáfa bókarinnar Forsætisráðherrar Íslands. Sú útgáfa er dagsett 15. september næstkomandi kl. 16.00. Rétt þykir að gefa hæstv. forsrh. færi á að lýsa fyrir þingheimi þessu bókverki sem ekki hefur áður verið kynnt eða rætt um á hinu háa Alþingi.

Nú er það raunar svo að á þessu ári er ekki sérstaklega að minnast stöðu forsætisráðherra. Það starf varð ekki til á Íslandi fyrr en árið 1917 og aldarminning fyrstu ríkisstjórnar Íslands, ráðuneytis Jóns Magnússonar, verður þess vegna varla minnst fyrr en árið 2017. Áður var um að ræða svokallaða ráðherra Íslands en þeir höfðu sem kunnugt er búsetu á Íslandi og voru háðir meirihlutastyrk á Alþingi frá 1904--1917.

Ef fjalla hefði átt um ráðherra í tilefni heimastjórnarafmælisins hefði því annað tveggja verið eðlilegt, að velja þá fimm menn sem í Íslandssögunni gegndu stöðu ráðherra Íslands í Reykjavík eða þá að fjalla um alla ráðherra Íslendinga eftir 1904, því að t.d. menntamálaráðherrar, landbúnaðarráðherrar eða umhverfisráðherrar eru arftakar ráðherra Íslands á sama hátt og forsætisráðherrar. Útgáfa bókarinnar á þessu ári er þess vegna vandskýrð með tilvísun til ráðherra Íslands í Reykjavík árið 1904.

Það kann hins vegar að valda nokkru um þessa bókargerð að um það hefur samist milli stjórnarflokkanna að einmitt útgáfudag hennar, 15. september, á núv. hæstv. forsrh. að láta af því embætti, a.m.k. um stundarsakir.

Forseti. Fyrirspurn minni um þetta efni var dreift á þinginu 12. febrúar, fyrir vel rúmum mánuði. Í frétt í dagblaðinu DV 9. mars síðastliðinn kemur í ljós í viðtali við Júlíus Hafstein að þrátt fyrir tilkynninguna á heimasíðunni lágu 9. mars --- eða 8. mars öllu heldur --- ekki fyrir helstu upplýsingar um þessa bók, um höfundskap hennar, um kostnað eða um ýmsa tilhögun útgáfunnar. Það er fremur óvenjulegt í íslenskri bókaútgáfu að slíkar ákvarðanir hafi ekki verið teknar í mars um bækur sem eiga að koma út um miðjan september. Segja má að hér sé þegar kominn enn einn atburðurinn í hátíðahaldaferli ársins þar sem ríkisstjórnin brýtur í blað.

Ég vona þó að þessar upplýsingar liggi fyrir núna og verði veittar á eftir. Spurningar mínar til hæstv. forsrh. um bókina Forsætisráðherrar Íslands liggja fyrir á þingskjali, á sérstökum blöðum, og ég þarf ekki að endurtaka þær hér.