Samræmd stúdentspróf

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 13:59:11 (5406)

2004-03-17 13:59:11# 130. lþ. 85.2 fundur 489. mál: #A samræmd stúdentspróf# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[13:59]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Fyrsta samræmda stúdentsprófið verður haldið í íslensku þann 3. maí nk. Einnig verður prófað í íslensku með samræmdu prófi í desember síðar á þessu ári. Á árinu 2005 verða auk íslensku haldin samræmd stúdentspróf í stærðfræði og ensku í maí og desember. Frá og með árinu 2005 verða allir sem ljúka stúdentsprófi að hafa tekið a.m.k. tvö samræmd stúdentspróf.

Prófin, virðulegi forseti, vega að fjölbreytileika og sérstöðu framhaldsskólanna þar sem aðaláherslan verður einungis á þau þrjú fög sem hér voru nefnd. Hugmyndafræðin á bak við samræmd stúdentspróf er röng. Þau mæla einungis ákveðnar greinar og steypa alla skólana í sama mót. Megintilgangur þessara prófa er sagður vera sá að jafna aðstöðu nemenda og gera þeim og viðtökuskólunum kleift að bera frammistöðu nemenda saman á jafnréttisgrundvelli þannig að háskólar geti tekið mið af einkunnum þegar teknir eru inn nýir nemendur. Það er hins vegar ljóst að í háskólum fer fram mjög sérhæft nám sem t.d. er ekki kennt á framhaldsskólastigi og í því ljósi orkar þessi gjörningur tvímælis svo vægt sé til orða tekið.

Árangur í samræmdu íslenskuprófi hefur ekkert að gera með hæfni viðkomandi til að læra til heimspekings, læknis, lögfræðings eða prests svo dæmi séu tekin. Samfylkingin hafnar þessari miðstýringu. Samræmd stúdentspróf búa þar að auki til óvægna samkeppni á milli skóla á kostnað nemenda og þó sérstaklega á kostnað skólanna úti á landi sem oft hafa ekki aðgang að sömu flóru menntaðra kennara til að keppa við skóla á stórhöfuðborgarsvæðinu sem geta einnig fengið færa kennara í stundakennslu o.s.frv.

Þá er mikilvægt að halda því á lofti að samræmd stúdentspróf vega að sérstöðu framhaldsskólanna. Þeir eru mjög fjölbreytilegir, hver með sínu sniði, og er óhætt að fullyrða að fjölbreytileikinn er einn stærsti kostur íslenska framhaldsskólakerfisins. Skólar eins og MR og MH eru gjörólíkir svo dæmi séu tekin og eiga að sjálfsögðu að vera það. Með upptöku samræmdra stúdentsprófa færist þungi og meginmetnaður kennslunnar yfir á samræmdu greinarnar og áhersla á ýmislegt annað nám minnkar verulega.

Í ljósi þeirra ágalla sem nú eru á samræmdum stúdentsprófum skora ég því á hæstv. ráðherra menntamála að beita sér fyrir því að minnka miðstýringuna í menntakerfinu og falla frá samræmdum stúdentsprófum. Leyfum þúsund blómunum að blómstra, hæstv. ráðherra, og því spyr ég hvort til athugunar sé í ráðuneyti hennar að falla frá samræmdum stúdentsprófum í framhaldsskólum.