Samræmd stúdentspróf

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 14:12:24 (5412)

2004-03-17 14:12:24# 130. lþ. 85.2 fundur 489. mál: #A samræmd stúdentspróf# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[14:12]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef þegar komið inn á er umfangsmikil vinna í gangi í ráðuneytinu varðandi styttingu námstíma til stúdentsprófs. Þar erum við með allt skólakerfið undir, frá leikskóla til háskóla, og við áskiljum okkur rétt til að meta það á heildstæðum grunni. Þess vegna hef ég sagt að það kunni að koma til þess að við þurfum að endurskoða þessi lagaákvæði um samræmd stúdentspróf. Þó áskil ég mér allan rétt til að gera það þegar stúdentsprófinu í íslensku sem við ætlum að láta nemendur þreyta nú í vor hefur verið lokið. Það getur líka verið að við öðlumst umfangsmikla reynslu af þessu samræmda stúdentsprófi í íslensku sem verður þreytt 3. maí í vor. Ég bið hv. þingheim að vera rólegan þar til því prófi er lokið því eins og ég gat um áðan hefur hátt á fimmta hundrað manns þegar skráð sig í prófið. Skráningarfresti er lokið. Áhuginn á að taka þetta próf er greinilega til staðar og nemendur vilja vita hvar þeir standa og hvaða þekkingu þeir hafa öðlast í náminu eftir þann tíma sem þeir hafa stundað framhaldsnám.

Rétt aðeins út af orðum hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur, ég hef ekki heyrt neitt um þetta og tel engan fót vera fyrir því að skólar með kennara eða skólastjórnendur í broddi fylkingar séu að hræða fólk til að taka samræmd stúdentspróf. Við höfum ekki einu sinni fast í dag hvort háskólarnir munu miða við slík próf. Það eru skiptar skoðanir innan háskólasamfélagsins. Ég var á fundi uppi í Háskóla Íslands um daginn þar sem forsetar deildanna voru ekki á einu máli um það hvaða gildi samræmt próf ætti að hafa varðandi inntöku í HÍ.