Þróun atvinnuleysis og kjör atvinnulausra

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 15:49:06 (5451)

2004-03-17 15:49:06# 130. lþ. 85.95 fundur 415#B þróun atvinnuleysis og kjör atvinnulausra# (umræður utan dagskrár), KLM
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[15:49]

Kristján L. Möller:

Frú forseti. Atvinnuleysi á landsbyggðinni hefur verið viðvarandi undanfarin ár og er hluti af þeim þjóðarvanda sem stundum er rangnefndur landsbyggðarvandi. Atvinnuleysisskráning í prósentum er eitt en fjöldi íbúa á íbúaskrá er allt annað. Íbúum hefur fækkað á landsbyggðinni, það er sem sagt hin hliðin á atvinnuleysinu, vegna fækkunar starfa, samdráttar og breytingar í atvinnuháttum. Fyrrv. félmrh. Páll Pétursson sagði að Framsfl. hefði gleymt landsbyggðinni. Það er rétt að taka undir það með honum.

Virðulegi forseti. Þessi umræða snýst einnig um atvinnuleysisbætur sem er einn mesti smánarblettur landsins, þ.e. upphæðin, ásamt ellilífeyri og örorkubótum. ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að atvinnuleysisbætur hækki og verði frá 1. mars árið 2004 rúmar 88 þús. kr.``, segir í yfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar frá 7. mars. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að við erum að tala um árið 2004 --- 88 þús. kr., hugsið þið ykkur. Atvinnuleysisbætur á mánuði á síðasta ári voru 77 þús. kr. Þá voru greiðslur með hverju barni 147 kr. og um áramótin hækkuðu greiðslur með barni um fjórar krónur, heilar fjórar krónur.

Með þeirri hækkun bóta sem nýverið var ákveðin hækkar greiðsla með hverju barni um 17 kr. Hæstv. félmrh., ertu virkilega hreykinn af þessum afrekum þínum?

Atvinnulaus einstaklingur með tvö börn hefur 96 þús. kr. úr að spila í atvinnuleysisbætur. Af þessu, virðulegi forseti, er hann látinn borga 10--11 þús. kr. í skatt til ríkisins. Atvinnulaus maður borgar tæplega 4 þús. kr. meira í skatt eftir þá smánarhækkun sem ákveðin hefur verið.

Virðulegi forseti. Atvinnuleysisbætur hafa verið allt of lágar undanfarin ár. Hæstv. ríkisstjórn á ekki að hreykja sér af þessum málum. Um hæstv. ríkisstjórn og atvinnuleysisbætur mætti segja: Hinn saddi veit ei hvað hinn svangi líður.

(Forseti (JBjart): Forseti áréttar við hv. þm. að beina orðum sínum til forseta en ekki til hæstv. ráðherra.)