Starfsskilyrði héraðsdómstólanna

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 10:32:29 (5495)

2004-03-18 10:32:29# 130. lþ. 86.95 fundur 420#B starfsskilyrði héraðsdómstólanna# (umræður utan dagskrár), Flm. JBjarn (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[10:32]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Frá árinu 1998 þegar ný lög um dómstóla tóku gildi hefur dómsmálum fjölgað geysilega í flestum málaflokkum. Innkomin mál á árinu 1998 voru 15.459 en árið 2003 voru þau 35.861. Einkamálum hefur á sama tíma fjölgað úr 6.369 í 16.538, þ.e. um 160%. Opinberum málum hefur fjölgað úr 1.811 í 6.483 á sama tíma, þ.e. um 258%, svo dæmi séu nefnd. Jafnframt þessari fjölgun verða dómsmál sífellt fjölbreytilegri og vandasamari. Meðalmálsmeðferðartími hefur verið að lengjast hin síðari ár. Þannig lengdist hann í munnlega fluttum einkamálum úr 233 dögum 2002 í 248 daga 2003. Í ályktun félagsfundar í Dómarafélagi Íslands 23. febrúar sl. segir svo, með leyfi forseta:

,,Á undanförnum árum hafa verkefni dómstólanna aukist, einkum vegna ört vaxandi málafjölda, flóknari mála og nýrra lögskipaðra verkefna. Á sama tíma hefur dómendum í héraði fækkað úr 50 í 38, þar sem stöður dómarafulltrúa voru lagðar niður árið 1998, án þess að gripið væri til fullnægjandi ráðstafana til mótvægis.

Dómstólar ráða ekki verkefnum sínum en verða að ljúka þeim öllum innan hæfilegs tíma. Réttaröryggi almennings felst m.a. í því að afgreiðsla mála hjá dómstólum sé skilvirk. Dómarar líta á það sem mikilvægan þátt starfsskyldu sinnar að hraða málum eftir föngum. Leiðir þetta af beinum fyrirmælum réttarfarslaga og mannréttindasáttmálum sem Ísland er skuldbundið til að fylgja.``

Áfram segir í ályktun Dómarafélagsins: ,,Dómarar hafa ekki talið það samrýmast eðli starfa þeirra að bera vandamál dómstólanna á torg. Nú þegar enn er þrengt að fjárhag héraðsdómstólanna og réttarvernd almennings með því stefnt í hættu geta dómarar ekki lengur látið kyrrt liggja. Telja dómarar afar brýnt að fjárveitingavaldið leiðrétti nú þegar fjárveitingar til héraðsdómstóla. Þá leggja dómarar áherslu á að með lögum verði tryggt að fyrirkomulag fjárveitinga taki mið af stöðu dómstóla sem eins þriggja þátta ríkisvaldsins.``

Þetta stóð í ályktun frá Dómarafélaginu. Þegar hæstv. dómsmrh. er spurður um starfsskilyrði dómstólanna og fjárhagsvanda þeirra svarar hann með útúrsnúningi og segir að upplýsingar um fjárþörf þeirra hafi borist of seint frá dómstólaráði fyrir fjárlagagerð. Það er hins vegar rangt hjá hæstv. ráðherra að fjárþörf dómstólanna hafi ekki legið fyrir. Að því er ég best veit voru fjárhagserfiðleikar dómstólanna kynntir fyrir ráðherra á allnokkrum fundum á árinu og fjárhagsstaða dómstólanna var einnig kynnt fjárln. bæði haustið 2002 og haustið 2003 og samhljóða erindi voru enn fremur send dómsmrn. Þá átti gríðarleg aukning mála fyrir dómstólum að vera ráðherra kunn.

Héraðsdómstólarnir hafa nú verið skikkaðir til að skera enn frekar niður í starfsemi sinni á þessu ári. Starfsmönnum verður fækkað, þar á meðal um þrjá lærða aðstoðarmenn dómara, á Ísafirði, Akureyri og í Reykjavík, yfirvinna hefur verið skert og laganemar ekki ráðnir í námsvist sem ekki er hvað síst alvarlegt fyrir starfsmenntun og þjálfun lögfræðinga. Ekki hefur enn verið ráðið í dómarastöður sem losnuðu 1. desember sl. og 1. janúar sl.

Í fréttatilkynningu dómstólaráðs frá 26. janúar sl. segir, með leyfi forseta:

,,Dómstólaráð telur að afkastageta starfsmanna dómstólanna sé fullnýtt ef málafjöldinn helst svipaður og verið hefur tvö síðustu ár og eykst ekki. Mun meðferð dómsmála lengjast verulega á árinu. Héraðsdómstólarnir hafa verið stoltir af þeim góða árangri sem náðist í styttingu málsmeðferðartíma eftir aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði árið 1992. Þessum góða árangri hefur verið teflt í tvísýnu með knöppum fjárveitingum,`` segir í ályktun frá dómstólaráði.

Virðulegi forseti. Lögð hefur verið áhersla á þrískiptingu valdsins sem hornstein lýðræðisins, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Dómstólarnir heyra nú undir framkvæmdarvaldið, dómsmrh., og í stað þess að taka sjálfstæða ákvörðun um fjárþörf dómstólanna er þeim stillt upp innan ramma fjmrn. og þeir látnir keppa um fjárveitingar við önnur verkefni, svo sem löggæslu og önnur verkefni dómsmrn. Slík er staða dómstólanna, þeir sitja fastir í klóm framkvæmdarvaldsins og ályktun Dómarafélagsins bendir til þess. Það hlýtur því að vera íhugunarefni fyrir Alþingi hvort sjálfstæði dómstólanna sé með þeim hætti sem ætlað er og hvort ekki sé rétt og jafnvel afar brýnt að skilja algerlega í milli og færa stjórnsýslu dómsmálanna frá framkvæmdarvaldinu og beint undir Alþingi til að tryggja sjálfstæði þeirra.

Virðulegi forseti. Ég beini erindi dómstólaráðs til hæstv. dómsmrh.