Starfsskilyrði héraðsdómstólanna

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 10:50:16 (5500)

2004-03-18 10:50:16# 130. lþ. 86.95 fundur 420#B starfsskilyrði héraðsdómstólanna# (umræður utan dagskrár), AtlG
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[10:50]

Atli Gíslason:

Frú forseti. Ég þakka umræðuna og vil geta þess að á árinu 1992 var gerð breyting á dómstólaskipaninni og réttaröryggi tryggt í landinu. Síðan 1998 hefur þrengt að. Dómarafulltrúar sem dæmdu aðallega hin svokölluðu skriflega fluttu mál voru ekki taldir bærir til að vera dómarar og voru af mannréttindaástæðum felldir út úr því dæmi og þar varð fækkun um 12 sem sinntu dómstörfunum. Síðan hefur orðið veruleg aukning á málafjölda.

Dómstólaráð hefur margsinnis kallað eftir úrbótum, sérstaklega á árinu 2003, með málefnalegum og faglegum hætti. Hið sama hefur félagsfundur Dómarafélags Íslands gert og haft faglegar áhyggjur af þróun mála og margir lögmenn skynja það einnig í störfum sínum. Það er mikið vinnuálag, málahali hefur aukist, það er vinnuþreyta hjá dómendum, þeir koma oft verr undirbúnir undir mál o.s.frv. og kerfið þolir vart veikindi eins þeirra.

Ég vil þó skoða þetta í miklu stærra samhengi og það samhengi er sjálfstæði dómstólanna sem er ein þriggja meginstoða lýðræðisins, hins þrískipta ríkisvalds. Sjálfstæði dómstóla er að mínu mati ekki nægilega tryggt í núverandi kerfi, framkvæmdarvaldið stýrir fjárveitingum og það skipar í dómarastöður. Ég hygg að það fari ekki saman að framkvæmdarvaldið geti með þessum hætti haft áhrif á sjálfstæði dómstóla sem fjalla m.a. daglega um mál sem framkvæmdarvaldið er aðili að. Framkvæmdarvaldið er svo sannarlega ekki alltaf ánægt með þær niðurstöður sem dómstólar koma með og er öryrkjamálið gott dæmi um það.

Ég hvet hæstv. dómsmrh. til að huga að kerfisbreytingum þannig að dómstólar verði óháðir framkvæmdarvaldinu. Slík kerfisbreyting styrkir lýðræðið í landinu og eflir réttaröryggið.