Starfsskilyrði héraðsdómstólanna

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 11:04:20 (5506)

2004-03-18 11:04:20# 130. lþ. 86.95 fundur 420#B starfsskilyrði héraðsdómstólanna# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[11:04]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður. Ég verð enn að árétta þá skoðun mína að ég er algerlega ósammála þeim sem telja að dómstólarnir séu ósjálfstæðir og að sjálfstæði dómstólanna sé ekki tryggt. Það er mjög alvarlegt að heyra hvern þingmanninn á eftir öðrum koma hér upp og efast um sjálfstæði dómstólanna við þá skipan sem nú er, og að það hafi síðan, eins og einn þingmaður orðaði það, sigið á ógæfuhliðina eftir að dómstólaráð kom til sögunnar árið 1998. Ég skil í raun og veru ekki þessar umræður og ég skil ekki hvernig þingmönnum dettur í hug að halda því fram að dómstólarnir séu ósjálfstæðir og að hér þurfi að gera einhverjar sérstakar stjórnskipulegar breytingar í þjóðfélaginu og á stjórnskipun ríkisins til að tryggja sjálfstæði dómstólanna. Mér finnst það vanvirðing við dómstólana að koma fram í ræðustól á Alþingi og tala þannig að dómstólarnir séu ekki sjálfstæðir og að í störfum þeirra komi fram eitthvert ósjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldinu eða ríkisvaldinu. Það er ekki svo og það er vanvirða fyrir alþingismenn að ganga þannig fram gagnvart dómsvaldinu eins og ýmsir þingmenn hafa gert hér.

Það er líka rangt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að ég hafi verið að svara dómstólaráði. Hann ruglar saman fundi Dómarafélags Íslands og dómstólaráði. Það er til marks um þessar umræður hvernig menn ganga hér fram og telja sig vera að tala málefnalega um alvarleg mál og rugla saman dómstólaráði og fundi hjá Dómarafélagi Íslands. Það var ályktun Dómarafélags Íslands sem ég gerði að umtalsefni og gagnrýndi þegar þeir voru að tala um að réttarvernd borgaranna væri skert vegna þess að fjárhagur dómstólanna væri á þann veg.

Ég hef hins vegar þá skoðun eins og kom fram í ræðu minni og ég hélt því fram, og væri nær fyrir þingmenn að vitna í það sem sagt er í þessum ræðustól, að það væri full ástæða til að skoða hvort það skipulag sem við höfum með dómstólaráði væri rétt og skynsamlegt miðað við þær aðstæður sem eru. Ég benti einnig á nauðsyn þess að fara aftur til baka og skoða hvort skynsamlegt hafi verið af Alþingi á sínum tíma að fella niður starf dómarafulltrúanna og það vald sem þeir höfðu.