Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 13:31:25 (5527)

2004-03-18 13:31:25# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[13:31]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Mér þótti ákaflega áhugaverð í umræðunni í morgun og í svörum við andsvörum hjá hæstv. iðn.- og viðskrh. ánægja hæstv. ráðherra með þessi frv. og þá skipan raforkumála sem hér á að taka upp. Hæstv. ráðherra réði sér nánast ekki fyrir kæti yfir því að vera að taka þessi stóru skref í átt til markaðs- og einkavæðingar raforkukerfisins í landinu. Ég hygg að hæstv. ráðherra hafi gengið þarna lengra en flestir ef ekki allir aðrir í því að lýsa beinlínis sérstakri ánægju og spenningi yfir þessum breytingum. Í umræðunni víða annars staðar hafa menn kannski talað á þeim nótum að þeir yrðu að láta þetta yfir sig ganga sem illa nauðsyn vegna þess að þetta væri tilskipun frá Evrópusambandinu sem okkur væri nauðugur einn kostur að uppfylla, og eru þó skiptar skoðanir um það eins og ég kem að síðar. En það var ekkert slíkt á ferðinni hjá hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra talaði um að það væri ekki í kot vísað að taka upp það fyrirkomulag að markaðsvæða og undirbúa einkavæðingu raforkusviðsins. Þetta væru mjög spennandi mál og eftir því sem ráðherra skoðaði þetta betur litist henni betur og betur á það og þar fram eftir götunum.

Þá fer maður auðvitað að skilja að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn, ef hún er öll sama sinnis, væri eðlilega ekki að gera mikið í því að láta á það reyna hvort við gætum fengið undanþágu frá þessari tilskipun eða a.m.k. staðið þannig að innleiðingu hennar hér að það hefði sem minnsta röskun á því fyrirkomulagi raforkumála í för með sér sem við vildum kannski halda óbreyttu. Nú getur vel verið að hæstv. ráðherra og Framsfl. séu orðin þeirrar skoðunar almennt að það eigi að einkavæða slíka hluti hvað sem það kostar og þó að það skapi ýmis vandræði og sé flókið úrlausnarefni eins og við vitum að það er. Það getur vel verið að við stöndum frammi fyrir því að Framsfl. sé orðinn markaðssinnaðasti flokkurinn á Íslandi, sé farinn að ganga lengra í þeim efnum en Sjálfstfl. Ég er ekki frá því, því að úr röðum sjálfstæðismanna hafa komið þó nokkrar efasemdir um þetta, t.d. núna upp á síðkastið.

Hér talar hæstv. iðn.- og viðskrh. og mótmælir því að rætt sé um veitustarfsemi af þessu tagi sem samfélagsþjónustu --- þetta er bisness í augum ráðherrans, það kom fram í orðaskiptum hæstv. ráðherra við hv. þm. Jón Bjarnason áðan --- og lýsir sérstakri ánægju með þennan markaðs- og einkavæðingarherleiðangur raforkumálanna. Þá er rétt, frú forseti, að menn geri sér grein fyrir því að ríkisstjórnin hefur valið, og samkvæmt því sem hæstv. ráðherra segir hér er það ákvörðun sem rekur sig allt aftur til 1999, að ganga talsvert lengra í þessum efnum en við strangt tekið þyrftum til að uppfylla ákvæði tilskipunarinnar. Hæstv. ráðherra sagði að það sem hefði komið í ljós við könnun, sem aldrei hefur fengist upplýst hve ítarleg var og mikil, væri a.m.k. það að við hefðum ekki getað fengin undanþágu frá því að innleiða samkeppni á framleiðslusviðinu, í framleiðslu raforku.

Gott og vel. En það er gengið lengra hér. Allt raforkusviðið og dreifingin eru lögð undir og það eru ekki einu sinni notaðir þeir möguleikar sem væru til þess að innleiða fyrirkomulag í anda þessarar orkutilskipunar á hluta orkumarkaðarins, t.d. gagnvart stóriðjunni. Það nægir, miklu meira en nægir. Það liggur fyrir að vegna þess hve hátt hlutfall raforkusölu á Íslandi fer til stóriðju væri Ísland búið að gera meira en nóg til þess að uppfylla samkeppnisþætti þessara mála með því að innleiða slíkt fyrirkomulag með aðskilnaði framleiðslu og dreifingar til stóriðjufyrirtækjanna, sem eru með 75 og bráðum 85 eða 90% af íslenska raforkumarkaðnum sem kaupendur.

Ég held, frú forseti, að það sé óhjákvæmilegt að rifja aðeins upp forsögu þessa máls, þ.e. þá að þetta er ekki eitthvað sem menn ættu að vera að vakna upp við vondan draum til nú, að það standi til að innleiða þessar evrópsku samkeppnisreglur á sviði raforkumála hér. Strax þegar Evrópusambandið setti sér þessar reglur, á árinu 1998, var vakin athygli manna á þessu hér. Ég hygg að fyrstur hafi gert það á Alþingi hv. þáv. þm., Hjörleifur Guttormsson, sem vakti þá athygli á þessu og vildi fá umræður um hvað þessi tilskipun boðaði, því ljóst mátti vera að hún færi síðan þessa leið, inn á borð sameiginlegu EES-nefndarinnar og til afgreiðslu þar og þannig væntanlega inn í EES-samninginn eða til fullgildingar á grundvelli hans.

Við reyndum, þingmenn og frambjóðendur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, í alþingiskosningunum 1999 að koma þessu máli á dagskrá þá og spurðum t.d. hvaða viðhorf menn hygðust hafa til þess sem að okkur mun bera á næsta ári, hvort við ætluðum að taka upp orkutilskipunina, sem er auðvitað gríðarlega stórt mál. Það fór lítið fyrir umræðum um það þá. Þegar tillagan kom svo fyrir þingið veturinn 1999--2000, í kjölfar ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar á árinu 1999, voru það við einir, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, sem lögðum til að ríkisstjórnin yrði send til baka með málið og falið að leita eftir undanþágu, helst ótímabundinni en til vara tímabundinni, við þessa tilskipun. Fyrir því eru mjög veigamikil rök sem ég hef ekki trú á öðru en að hægt hefði verið að fá skilning á á vettvangi Evrópusambandsins og meðal annarra þjóða sem við erum þar í samstarfi við. Fyrir því eru mörg fordæmi að menn hafa fengið rúma möguleika til að bregðast við út frá sínum séraðstæðum í málum af þessu tagi.

Ég nefni t.d., eins og ég vakti athygli á í nefndaráliti mínu sem minni hluti utanrmn. vorið 2000, að Ísland fékk umyrðalaust undanþágu frá tilskipun um gagnsæi verðlagningar og gegnumflutninga á jarðgasi á Evrópska efnahagssvæðinu. Hvers vegna skyldi Ísland hafa fengið undanþágu frá því? Jú, augljóslega sáu menn að það var meiningarlaust og út í loftið að Ísland þyrfti að fara að innleiða hér einhverja tilskipun um verðlagningu og flutninga á jarðgasi þar sem ekkert grasdreifingarkerfi er til. Við gátum að langmestu leyti fært sömu rök fram fyrir því að við fengjum undanþágu frá raforkutilskipuninni vegna þess að einn megintilgangur raforkutilskipunarinnar er að innleiða samkeppni í raforkusölu, ekki síst milli landa og gera allt meginland Evrópu að einum orkumarkaði sem er algerlega merkingarlaust fyrir Ísland.

Þriðja meginmarkmiðið, svo kaldhæðnislegt sem það nú er í tilskipun Evrópusambandsins um innri markað fyrir raforku, er að tryggja öryggi í afhendingu raforku. Ég bið menn að færa fyrir því rök að það sé liður í því að tryggja öryggi í afhendingu raforku hér á landi að einkavæða eða markaðsvæða dreifingarkerfið þar sem reynslan úr öllum áttum hrópar á okkur um hið gagnstæða, þannig að sú röksemd fellur og eftir er þá það eitt að fjórði megintilgangur tilskipunarinnar er að auka samkeppni í framleiðslu á raforku. Okkur er ekkert að vanbúnaði að gera það og hún er út af fyrir sig til staðar nú þegar eins og menn sjá í vissum skilningi, t.d. þegar stórnotendur eiga í hlut er mönnum frjálst að keppa um að reyna að selja þeim raforku og það geta menn gert.

Því miður, frú forseti, fór það svo við atkvæðagreiðslu 8. maí árið 2000 að það voru eingöngu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem greiddu atkvæði með tillögu minni um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar og fela henni að taka málið upp á nýjan leik á vettvangi sameiginlegu nefndarinnar með þeirri leiðsögn að leita þar eftir ótímabundinni undanþágu, eða til vara að Íslendingar fengju mun lengri aðlögunartíma að þessum breytingum að lágmarki 12--15 ár.

Á þessum tíma var á það bent af okkar hálfu hversu gríðarlega mikið væri óunnið áður en við gætum undirgengist þessa skilmála og hvað mörg stór álitamál þyrfti að útkljá áður. Það hefur heldur betur komið á daginn, sá tveggja ára aðlögunartími sem menn héldu að dygði í þeim efnum var fram á sumar 2002. Síðan varð málið afvelta og í deilum milli manna og Ísland komst í raun og veru í ónáð af því að það hafði ekki fullgilt tilskipunina innan tilskilinna tímamarka. Og enn er málið hér með verulega lausa enda á ferðinni og margt óséð fyrir enn um það hvernig tiltekst. Það er ekki aldeilis búið að ná samkomulagi milli aðila um að verðleggja mannvirkin inn í nýtt fyrirtæki. Ætli það gæti ekki átt eftir að reynast handleggur? Það vita auðvitað allir sem vilja vita að það hafa verið logandi átök á bak við tjöldin milli þessara aðila, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja, Rariks og fleiri aðila.

[13:45]

Frú forseti. Hér er auðvitað verið að taka risaskref í að markaðsvæða og undirbúa einkavæðingu raforkumála í landinu. Þá er enn eitt sviðið af þessu tagi sem mörgum okkar er tamt að telja til undirstöðuþjónustu, almannaþjónustu, að fara þessa leið. Formúlan er alveg klár. Það er gert að skilyrði að um hlutafélag sé að ræða. Það er gert að skilyrði að ef menn ætli að vera með félagslegar ráðstafanir gagnvart viðkomandi málasviði sé það utan kerfisins, þá komi það á fjárlögum. Það er auðvitað vegna þess að hyggist menn markaðsvæða og einkavæða vilja einkaaðilar ekki taka við slíkum pinklum í framtíðinni. Nei, þá er betra að þar komi til greiðslur úr ríkissjóði. Þetta er formúla frjálshyggjunnar.

Hæstvirtir ráðherrar, sérstaklega Framsfl. sem eru eins og stundum áður duglegir í flórmokstrinum, eru í verkunum fyrir íhaldið sjálft, leggja niður slíka jöfnun á hverju sviðinu á fætur öðru. Það er kannski bara ekki svo leitt sem lætur. Kannski er það orðið eins og ég sagði í byrjun, að Framsfl. sé kominn fram úr Sjálfstfl. og sé að verða meiri frjálshyggjuflokkur nú en íhaldið sjálft. Það skyldi ekki vera. Þá tek ég auðvitað til hliðar tíst af því tagi sem heyrðist frá hæstv. félmrh. á iðnþingi á dögunum, sem er til aflausnar held ég. Meðan menn gera ekki annað en lýsa áhyggjum þjónar það væntanlega fyrst og fremst slíkum tilgangi. (Iðnrh.: Það liggur illa á einhverjum.) Það liggur mjög vel á þingmanninum. Ég er hins vegar að ræða um pólitík, frú forseti. En það er greinilegt að framsóknarmönnum er það ótamt og þeir vilja sem minnst um hana tala.

Ég skil vel að hæstv. ráðherra þyki þetta ekki skemmtilegt og að meira gaman væri að vera á einhverjum öðrum vettvangi þar sem ekki væri talað um pólitík og grundvallarmál í fjármálum. Það er auðvitað bara leiðindanöldur að menn séu eitthvað að velta því fyrir sér hvernig menn ætla að hafa samfélagið og móta það í grunninn. Ég er bara þeirrar gerðar að ég leyfi mér að hafa skoðun á því. Ég held henni fram og er ófeiminn við það. Það skiptir mig engu máli þó að menn beri fyrir sig tískuklisjur eða telji að pólitík sé bara straumur og tíðarandi sem allir hljóti að berast með. Það er ekki þannig. Það er ekki sjálfgefið að við eigum að markaðsvæða alla skapaða hluti í samfélaginu og leggja verðmælikvarða á alla hluti.

Hvað verður næst? Hvað verður reynt að einkavæða næst eða markaðsvæða? Lífshamingjuna? Á að koma böndum á hana og selja mönnum hlutabréf í henni? Hvað er eftir ef undirstöðuþættir í samfélaginu af þessu tagi í landi eins og Íslandi, stóru og strjálbýlu landi þar sem orkan skiptir gríðarlega miklu máli, ef öryggið varðandi afhendingu hennar og jafnræði þegnanna gagnvart því er látið lönd og leið? Þá er víglínan komin ansi innarlega. Það er auðvitað að gerast. Hún er að færast að innsta kjarna samfélagsins með einkavæðingu ýmissa undirstöðuþátta. Ef það gerist nú á nokkrum mánuðum eða missirum að bæði raforkumálin og fjarskiptin, þ.e. Landssíminn, fara þessa sömu leið þá fer að hrikta dálítið í. Ætli menn viti ekki að þetta eru undirstöðuþjónustuþættir sem skipta sköpum fyrir menn upp á að geta lifað og starfað í nútímasamfélagi?

Hvernig hefur gefist að henda þessu í einkaaðila? Hvernig hefur það gefist? Hvernig er ástandið í raforkudreifingarmálum austan hafs og vestan þar sem menn hafa farið slíkar leiðir? Þurfum við alltaf að gera sömu mistökin og allir aðrir. Það hefur beinlínis komið í ljós að ýmislegt af þessu tagi eru hrapalleg mistök?

Hið alvarlegasta, frú forseti, í málinu er markaðsvæðingin, sú arðsemiskrafa sem taka á inn og tilburðir til að skapa eitthvað sem menn kalla samkeppnisumhverfi á sviði sem lýtur óumflýjanlega lögmálum náttúrulegrar einokunar. Ég vek athygli manna á því, t.d. sjálfstæðismanna, að ríkið ætlar með frv. þessu að stuðla að því að einkavæða einokunarstarfsemi. Það stendur í frv. að eitt fyrirtæki skuli annast flutning raforku og kerfisstjórnun, eitt fyrirtæki. Það er gengið frá því í lögunum að einu fyrirtæki skuli falið þetta hlutverk. Eðlilega. Enda væri lítil skynsemi í öðru af því að hér er um að ræða starfsemi sem í eðli sínu lýtur lögmálum náttúrulegrar einokunar. Samt á að innleiða á þessu sviði einhvers konar arðsemishugsun. Það á að reka þetta fyrirtæki með hagnaði og draga út úr því arð þó að það lúti lögmálum náttúrulegrar einokunar.

Þetta eru mestu ógöngurnar sem menn hafa hvarvetna ratað í þar sem ofstækið hefur borið menn ofurliði í einkavæðingunni. Þetta er það sem gerist. Hver er niðurstaðan? Jú, niðurstaðan er sú að menn vanrækja öryggisþættina. Arðsemiskrafan hefur yfirhöndina. Lestarteinarnir grotna niður, raforkukerfin bila og menn verða rafmagnslausir, milljónum og milljónatugum saman. Sú er niðurstaðan. Þannig fór í Kaliforníu, á austurströnd Bandaríkjanna, í Suður-Svíþjóð og á Sjálandi. Þetta á við um Nýja-Sjáland, við bresku lestirnar, bresku vatnsveiturnar o.s.frv.

En það er ekkert hik á framsóknarmönnum. Nei. Ég held að það verði að senda frú Thatcher skeyti um að hún hafi eignast alveg nýja og gallharða bandamenn á Íslandi undir forustu iðnrh. Framsfl.

Við erum talsmenn þess að jöfnunin sé innan kerfisins. Af hverju erum við talsmenn þess? Hæstv. ráðherra furðaði sig á því í umræðum fyrr í morgun. Jú, við erum það m.a. vegna þess að slík jöfnun er ekki í hendi nema um hana sé búið þannig. Hæstv. ráðherra hendir aftur á móti út þeirri jöfnun, þeirri félagslegu hugsun sem hefur verið í ýmsum kerfum af þessu tagi, t.d. flutningsjöfnun á sementi eða á raforku, og segir að það eigi að koma á fjárlög ef menn vilji jafna.

Frumvarp til laga um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku er þannig úr garði gert, frú forseti, að þar segir:

,,Ef ákveðið er í fjárlögum að ráðstafa fé til að lækka kostnað almennra notenda vegna dreifingar raforku ...``

Hæstv. ráðherra var svo vinsamlegur að kenna mér að svona væri alltaf ákveðið í fjárlögum á hverju ári. Ég þakka fræðsluna. En svo mikið veit ég um lagatexta að það þarf ekki að standa ,,ef``. Alþingi getur ákveðið í lögum að á fjárlögum skuli verja fé til að jafna flutningskostnað vegna dreifingar á raforku. Hæstv. ráðherra getur farið í lagasafnið og lesið að þar er mjög víða slíkt orðalag. Auðvitað væri strax skárra ef textinn væri þannig úr garði gerður að hann fæli um leið í sér stefnumótun af hálfu Alþingis um að svo skuli gera. Það er lýsandi fyrir hugarfarið, a.m.k. hjá frumvarpshöfundunum, að hafa ,,ef`` til að halda til haga því að það sé auðvitað ekki sjálfgefið. Nei, alls ekki. Málið er haft alveg opið og engin stefna á að koma fram eða vilji, að því er virðist, bara að ráðherra hafi sitt fram.

Hvers vegna setti ekki ráðherra inn annað orðalag? Til dæmis mætti segja: Ákveða skal á fjárlögum hverju sinni fjármuni til að jafna eða lækka kostnað almennra notenda vegna dreifingar raforku o.s.frv. Í því væri þó strax ákveðin viljayfirlýsing fólgin, ákveðin stefna. Auðvitað getur þingið breytt því og þingið ákveðið upphæðirnar. En þó væri ljóst að það þing sem gengur frá lögunum í byrjun gengi út frá því að svo sé gert. Maður spyr sig að því hvers konar vinnubrögð það eru að koma inn með þetta svona en tala í leiðinni um að það sé ákaflega mikilvægt að stjórnarflokkarnir séu sammála um að æskilegt sé að hafa þessa jöfnun.

Ef ekki væri hin mikla arðsemiskrafa sem þarna á að taka inn væri verðjöfnunarþátturinn í flutningskerfinu svo lágur að hann sjálfur mundi leiða til hverfandi hækkunar á rafmagni, fáeinna aura á kílóvattstund. Það er ekkert til þess að æsa sig yfir. Að menn skuli fara á taugum út af því að hent sé fram útreikningum um risahækkun á raforkuverði, sem tekur eftirlitskostnað, arðsemiskröfuna og allt inn í myndina og gjaldfærir á flutningsjöfnunina, það er alveg dæmalaust.

Ég skildi það svo að niðurstaða meiri hluta 19 manna nefndarinnar væri sú að þar væri yfirgnæfandi stuðningur við að flutningsjöfnunin færi fram innan kerfisins, a.m.k. að verulegu leyti. Auðvitað var talið mögulegt að fara blandaða leið. Þá væri það líka í hendi að ef menn ætluðu síðan síðar að fara að einkavæða eða rassakastast í því fyrirtæki hefði það þá kvöð á herðunum.

Landsvirkjun hefur haft kvöð á herðunum. Landsvirkjun hefur haft mikil réttindi en hún hefur líka haft skyldur. Það hefur verið látið haldast í hendur og verið sagt að Landsvirkjun skuli afhenda rafmagnið á sama verði á öllum sínum afhendingarstöðvum enda hefur hún mjög víðtæk réttindi sem henni eru sköpuð í sérlögum.

Varðandi eignarhaldið og fyrirtækjaformið gengur hæstv. ríkisstjórn út frá því að þetta skuli vera hlutafélag. Hvers vegna? Hvers vegna á það að vera hlutafélag sem hefur einokun á því hlutverki að dreifa rafmagni um landið? Af hverju að innleiða viðskiptahugsun með arðsemissjónarmiðum inn í það mál? Af hverju er þetta ekki skilgreint í grunninn sem þjónusta og látið vera í sameignarfyrirtæki á grundvelli sérlaga eða í sjálfseignarstofnun eða með einhverjum öðrum slíkum hætti um það búið til að halda þessu algerlega aðskildu? Svo geta menn verið með fyrirtæki sem selja eða dreifa á hinum endanum. En varðandi einokunaraðila á að vera algerlega skýrt samkvæmt lögum og miðað við rekstrarform að þar sé ekki um að ræða fyrirtæki í hefðbundnum skilningi að það þjóni þeim markmiðum, kannski umfram öll önnur, að færa eigendum sínum arð. Það er óeðlilegt og fráleitt að hugsa svo nema menn séu búnir að ákveða að í framtíðinni, kannski fyrr en síðar, verði þetta einkavætt, nema markaðsvæðingin sé bara undanfari einkavæðingar. Auðvitað glittir í það.

Í frv. um Landsnet er tekið fram að ríkissjóði sé heimilt að selja allt sitt hlutafé strax. Til hverra? Jú, til hinna aðilanna sem hafa þá lagt flutningsvirki inn í púkkið. Þeir aðilar geta einkavæðst og þar með er auðvitað galopnað á einkavæðinguna strax þótt annað sé látið í veðri vaka. Þora menn þá ekki að koma alveg hreint til dyranna?

Í ræðu sem ráðuneytisstjóri iðn.- og viðskrn., Kristján Skarphéðinsson, hélt á málþingi um íslenska orkustefnu --- hann má þó eiga það að hann fór ekki í launkofa með það --- kom fram að sú hugsun svífur yfir vötnunum í iðnrn. að einkavæða þetta, að ríkið og jafnvel sveitarfélögin einnig fari út úr þessu þannig að einhverjir geti grætt á þessu.

Í þeirri ágætu ræðu segir, ef ég má vitna í hana, með leyfi forseta: ,,... að mikilvægt sé að hafa í huga að markaðsvæðing raforkukerfisins þurfi ekki endilega að þýða einkavæðingu þess``. --- Nei, það er nú sennilega rétt. Það þarf ekki endilega að þýða það en gæti mjög líklega gert það. Áfram er talað um Noreg sem dæmi um slíkt. Það er alveg rétt að Norðmenn hafa stigið varlega til jarðar, miklu varlegar en Íslendingar, og t.d. oft mótað þá stefnu að ríkið haldi áfram að vera meðeigandi í ýmsum mikilvægum fyrirtækjum og stofnunum sem það hefur átt aðild að, t.d. bönkum, öfugt Ísland þar sem þessu er bara hent yfir í einkaaðila á einu bretti.

En síðan segir ráðuneytisstjóri iðnrn.:

,,Hins vegar kann að teljast æskilegt í framtíðinni að ríkið stefni að því að draga sig smátt og smátt út úr samkeppnisþætti raforkumarkaðarins og almennir fjárfestar taki við. Slík markaðsvæðing raforkuframleiðslunnar væri til þess fallin að auka hagræði og samkeppni og efla hlutabréfamarkað.``

Já, það gæti verið að einhverja langaði þar í matarholu sem núna er eitthvað farin að minnka þegar blaðran er orðin dálítið þanin. Að vísu segir ráðuneytisstjórinn, og þökk sé honum, að raforkumarkaðurinn sé enn þá svo óþroskaður að hann þurfi að líkindum töluverðan tíma áður en sölu- og framleiðslustarfsemi raforkufyrirtækja verður hæf til sölu á almennum markaði.

Það gæti verið að t.d. Landsvirkjun sé ekki sérstaklega fýsileg til einkavæðingar í augnablikinu með Kárahnjúkana á bakinu og bullandi erfiðleikar fram undan hvað varðar eiginfjárstöðu þess fyrirtækis og afkomu á næstu árum, ef svo heldur sem horfir, því miður.

Nei, frú forseti. Það á auðvitað ekki að reyna að fara í launkofa með það. Hæstv. ráðherra á ekki að reyna að fela það að Framsfl. er að ryðja brautina, ekki bara fyrir algerri markaðsvæðingu raforkumálanna heldur líka að undirbúa einkavæðingu. Framsfl. gengur þannig frá hnútunum að söluheimildin á hlut ríkisins í einokunarfyrirtækinu liggur fyrir frá byrjun. Frá fyrsta degi verður heimilt að selja hlut ríkisins um leið og búið er að koma fyrirtækinu saman og ná samkomulagi, ef það þá tekst, um skiptahlutföllin.

Samt liggur fyrir að yfir Íslendinga hefur á undanförnum mánuðum og missirum rignt fréttum af þeim ógöngum sem menn hafa lent í annars staðar þar sem þeir hafa markaðs- og einkavætt raforkukerfin. Við höfum fengið gesti sem hver á fætur öðrum hefur varað við og sagt: Nei, nei, bíðið nú við, Íslendingar. Þið eruð í grunninn með ágætt fyrirkomulag og hvers vegna skylduð þið breyta því og fara á eftir okkur út í foraðið sem hefur gefist skelfilega? Reynsla manna í Kaliforníu, á austurströnd Bandaríkjanna, á Skáni, í Suður-Svíþjóð og Danmörku er víða skelfileg. Svo ekki sé minnst á Nýja-Sjáland sem í þessum tilvikum eins og fleirum hefur lent í öllum hremmingunum sem nýfrjálshyggjunni tengdust, enda gengu þeir lengra en flestir aðrir í tilraunastarfsemi sinni með nýsjálenskt samfélag. Þeir hafa heldur betur fengið að súpa af því seyðið í heilbrigðiskerfinu, orkumálum, fjarskiptunum o.fl.

Hingað komu t.d., frú forseti, þingmenn af Kaliforníuþingi. Skyldi nú ekki standa til að Alþingi endurgjaldi heimsóknina síðar á þessu ári? Við ætlum þá kannski að færa þeim fréttirnar af því að við höfum ekki gert mikið með þeirra góðu ráð? Þeir báðu okkur, eins og guð sér til hjálpar, að lenda ekki í sömu ósköpunum og þeir lentu í með raforkumálin í Kaliforníu, kannski með þeirri einu undantekningu að Los Angeles borg slapp betur en afgangurinn af fylkinu. Það var af því að þeir höfðu varið eignarhaldið á sínum veitum sjálfir.

Þessir ágætu þingmenn, Bruce McPherson og Dede Alpert, eða hvað frúin heitir, hvort úr sínum flokki, repúblikani og demókrati, sögðu einfaldlega eins og Morgunblaðið hefur eftir þeim með fyrirsögn: ,,Þetta mistókst herfilega.`` --- Þetta mistókst herfilega.

[14:00]

Þessi Bruce McPherson er spurður að því hvort hann sé þá orðinn algjörlega afhuga einkavæðingu og hann segir bara ósköp einfaldlega: Ja, reynslan af þessu er sú að ég hef enga trú á því að menn vilji nokkurn tímann aftur prófa þetta hjá okkur. Þetta er ekki einhver róttækur sósíalisti sem talar. Nei, þetta er repúblikani og í þeim flokki þykir orðið frjálslyndur skammaryrði, þeir eru svo hægri sinnaðir. Það þykir, eins og menn heyra núna úr kosningabaráttunni í Bandaríkjunum, skammaryrði að segja það um mann að hann sé frjálslyndur í skoðunum þegar repúblikanar auglýsa í sjónvarpi. En Bruce nokkur McPherson, repúblikani frá Kaliforníu, segir þetta um markaðsvæðingu raforkukerfisins: Þetta mistókst svo herfilega að við höfum enga trú á því að menn langi til að reyna annað eins í bráð. Svo ekki sé minnst á þingmann demókrata sem auðvitað segir að þetta sé frá sínum sjónarhóli öflug röksemd gegn einkavæðingunni og talar um að raforka og vatn og aðrar slíkar grundvallarauðlindir eða slík grundvallargæði eigi að vera sameign allra. Og það er orðið dálítið magnað þegar demókratar frá Bandaríkjunum tala þannig að það hljómar eins og hálfgerður sósíalismi hér, demókratar frá Kaliforníu. Framsfl. er hægra megin við repúblikanaflokkinn í málinu, repúblikana í Kaliforníu. Ja, öðruvísi mér áður brá.

Við fengum annan góðan gest frá Kaliforníu, úr því að maður er kominn þarna til ríkis sólarinnar þar sem er auðvitað ágætt að vera, a.m.k. er veðráttan góð og kemur sér vel þegar menn eru meira og minna rafmagnslausir að það sé ekki mjög kalt í veðri. En orkumálastjóri Kaliforníu kom hingað líka, David Freeman. Freeman heitir maðurinn, bara næstum því nafni Miltons Friedmans, og hann segir um þetta:

,,Það olli okkur vandræðum að heittrúaðir boðberar frjáls markaðshagkerfis og afnáms sérleyfa komu þeirri vitlausu hugmynd inn hjá okkur að sala á raforku gæti farið fram í einkageiranum. Það gekk ekki. Það olli fólki hugarangri þegar í ljós kom að fjárfestingar í dreifikerfum raforku höfðu verið vanræktar. Við vitum öll að dreifikerfi raforku eru viðkvæm, en ef rafmagnið fer er hægt að koma því aftur á næsta dag. Ég hef það á tilfinningunni að núverandi raforkukerfi Íslendinga sé mjög gott. Af hverju ættuð þið að einkavæða það?`` spyr orkumálastjóri Kaliforníu. (Iðnrh.: Við erum ekki að einkavæða það.) Það er verið að markaðs- og síðan einkavæða þetta kerfi, hæstv. ráðherra. Eru menn orðnir eitthvað feimnir undir þessum lestri?

Og áfram heldur ... (Gripið fram í.) Ég hef haldið þessu rækilega aðgreindu í ræðu minni. Hér er verið að markaðsvæða kerfið algerlega með því að fara með það yfir í hlutafélagaform og síðan er opnað fyrir einkavæðinguna með söluheimildum frá byrjun. Það hefur enginn misskilningur verið hér á ferðinni af minni hálfu en ég heyri að hæstv. ráðherra er að verða eitthvað viðkvæm.

David Freeman segir, aðspurður um það hvort menn óttist þar vestra að hryðjuverkamenn muni ráðast á rafveitukerfið í Bandaríkjunum, þó að kannski sé alveg á mörkunum að viðeigandi sé að nota þá samlíkingu var hún nú tekin upp þarna:

,,Nýlegt rafmagnsleysi var ekki af völdum hryðjuverkamanna. Það þurfti ekki hryðjuverkamenn til að finna út hvernig loka ætti fyrir rafmagnið til 50 milljóna manna. Við vorum einfær um það með vanrækslu og trassaskap fólks á hinum frjálsa markaði sem trúði því að markaðurinn leysi allan vanda. Stjórnvöld eiga að bera ábyrgðina á rafmagninu,`` segir David Freeman, raforkumálastjóri þeirra í Kaliforníu.

Svona er tónninn í mönnum þar vestra eftir meira en áratuga reynslu af þessum æfingum. Svipað segja menn nú á austurströnd Bandaríkjanna þar sem menn hafa neyðst til að leysa á nýjan leik til sín einkavæddar veitur af því að allt var í kaldakoli og ólestri. Hvað kom í ljós í Skandinavíu? Dreifikerfið er að drabbast niður og mönnum liggur svo á að græða að þeir fylla ekki einu sinni uppistöðulónin. Þeir tappa af þeim hraðar en skynsamlegt er miðað við afhendingaröryggi allt árið. Og kólni í veðri í nokkrar vikur umfram það sem vant er er allt í hafaríi. Þá þarf að keyra allt varaafl inn með gríðarlegum kostnaði. Niðurstaða manna þar er sú að þeir hafi goldið þessara breytinga á allan hátt. Öryggið er minna og verðið er hærra. Til hvers er þá leiðangurinn? Til hvers er hann?

Og að heyra svo fjarstæðukennt fjas sem ég leyfi mér að kalla svo, eins og hæstv. ráðherra var með áðan, að þetta henti Íslandi alveg sérstaklega, finnst mér með endemum. Þetta hentar Íslandi náttúrlega á engan hátt. Við með okkar litla sérhæfða notendamarkað í þessari hörmulegu sambúð við stóriðjuframleiðsluna, sem aldrei skyldi verið hafa. Það er enn síður líklegt að útkoman út úr því verði gæfuleg fyrir okkur ef við ætlum að feta okkur inn á þá braut að fara að taka arð út úr þessari þjónustu sem notendurnir verða að borga og þeir mest sem hæsta borga rafmagnsreikningana, og fara að bæta ofan á eftirlitskostnaði, því að um leið og að nafninu til er farið að tala um einhverja samkeppni þarf gjaldskrár og eftirlit. Og hvað verður Orkustofnun? Hvað þarf að auka mikið við starfsemi hennar til að hún geti sinnt því o.s.frv.? Niðurstaðan er þessi og reynslan er ólygnust.

Auðvitað er það líka umhugsunarefni í ljósi sögunnar ef það á að verða svo að þessi ósköp eigi yfir okkur að ganga, að eigendur raforkufyrirtækjanna, sem eru ríkið og tiltekin sveitarfélög í landinu, fara að draga sér arð út úr þessari starfsemi. Og hverjir borga hann? Notendurnir, og þeir mest sem hæsta borga rafmagnsreikningana. Það er auðvitað þannig. Og þá lenda þeir enn einu sinni verst út úr því sem alltaf eru að lenda verst út úr þessu. Það eru íbúar svæðanna sem ekkert eiga í þessum fyrirtækjum en eiga að fara að greiða hinum arðinn. Þetta er það fyrirkomulag sem menn eru að fara út í.

Því segi ég: Ekki hefur núverandi ástand að öllu leyti verið gott. Hlutverk Rariks er auðvitað óhagstætt og óhagkvæmt fyrir þá sem við það búa, að við skulum vera með sérfyrirtæki sem dreifir orkunni á fámennustu og strjálbýlustu svæði landsins, og þar borga menn hæstu reikningana. En að fara úr öskunni í eldinn hefur eiginlega ekki hvarflað að mér fyrr en nú að stæði til, en það er það sem ég óttast að menn séu að fara hér inn á.

Þegar svo við bætist að verðjöfnunin er ,,ef``, verðjöfnunin á að vera ,,ef`` á hverju einasta ári í fjárlögum, þá lýst mér ekki á blikuna. Hvernig hefur stundum farið um þessi ef? Jú, það er þannig að í hvert skipti sem fjárlög eru afgreidd geta menn gripið til þess ráðs að krukka aðeins í þetta. Er það ekki? Hvernig hafa menn oft farið með liði af þessu tagi þó að í byrjun séu kannski settir þar inn fjármunir? Menn nota þá aðferð til að skerða þá að þeir láta þá ekki fylgja verðlagi. Og þegar það bætist við að þessar breytingar þýða, og það er boðað, að Landsvirkjun fellir nú niður afslætti sína til húshitunarrafmagns, að ein gjaldskrá á að gilda innan hvers dreifisvæðis til allra notenda, óháð því hvort keypt er til húshitunar eða annarra þátta. Það þýðir að húshitunarrafmagnið hækkar sjálfsagt um hátt á annað hundrað ef ekki 200 millj. kr. eða eitthvað af þeirri stærðargráðu því afslættir Landsvirkjunar eru upp á 100 millj., Rariks 20, Orkubús Vestfjarða 5 millj. o.s.frv. Til viðbótar verður svo gjaldskrárhækkun vegna þess að hún jafnast út. Þá verður það nú handleggur að ná þeim peningum inn í fjárlögin. Eða hafa peningar vaxið á trjánum í slíka hluti, í svona verkefni? Ég hef ekki orðið var við það, ekki finnst þeim það a.m.k. á Landspítalanum. Þetta er því ekki svona einfalt eins og hæstv. viðskrh. vill, að mínu mati, vera láta.

Hver verður verðmiðinn á þessu gagnvart þjóðinni þegar upp er staðið? Það er enginn vafi á því að þetta hækkar raforkuverðið. Arðsemiskrafan og eftirlitskostnaðurinn gera það óumflýjanlega. Fjármunir eru teknir út úr dæminu sem ekki þarf ef ríkið á þetta og rekur þetta sem samfélagsþjónustu án þess að gera tilkall til arðs. Það eru eingöngu settir fjármunir í að tryggja eðlilega endurnýjun og viðhald kerfisins. Þann verðmiða vantar. Hann hefur ekki verið reiknaður. Það eitt og sér er mikill ábyrgðarhluti að gera á þennan hátt.

Það sem er langréttast að gera, frú forseti, er auðvitað að senda ríkisstjórnina til baka með málið, senda fulltrúa Íslands inn í EES-nefndina aftur og segja: Það kemur í ljós þegar málin eru skoðuð að það veldur þvílíkum erfiðleikum á Íslandi að taka upp þessa tilskipun að við biðjum um undanþágu. Það er ekkert í EES-samningnum sem kemur í veg fyrir það eða bannar það að menn fari fram á breytta framkvæmd hans að þessu leyti. Það eru í sjálfu sér heldur engin sérstök ákvæði sem beinlínis gera ráð fyrir slíku, enda er það ekki venjan í samningnum, en það mætti vitna til 102., 111. og 112. gr. EES-samningsins, fara með erindið inn í sameiginlegu EES-nefndina og láta á það reyna þar hvort skilningur fengist fyrir því að Ísland fengi varanlega undanþágu eða a.m.k. tímabundna til nokkuð langs tíma vegna þess að niðurstaðan af skoðun mála hér hefði leitt í ljós að þessu fylgdu miklir erfiðleikar og það væri óhagstætt Íslandi að fara að raska sínum raforkumálum, enda engin ástæða til þar sem við erum með einangraðan raforkumarkað á eyju í miðju Atlantshafi.