Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 16:22:35 (5544)

2004-03-18 16:22:35# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[16:22]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hefur nú gert grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu. Þau liggja fyrir og fyrir þeim eru auðvitað þau rök sem hann hefur borið fram. Því er ástæðulaust annað en að taka þau alvarlega eins og önnur sjónarmið sem fram hafa komið í umræðunni. Ég er sannfærður um að þetta mál muni fá vandaða meðferð í þinginu. Það er víst að iðnn. mun vanda til verka við efnistök í þessu máli þannig að menn þurfa ekki að óttast að kastað verði til höndunum við yfirferð málsins í þingnefnd.

En mig langar að biðja hv. þm. að útskýra fyrir mér framkvæmd sem notið hefur stuðnings flokks hans í Reykjavíkurborg. Hún er andstæð því sjónarmiði sem hann lýsti varðandi þingmálið. Ég veit ekki betur en að þeir sem stjórna í Reykjavíkurborg og hafa gert á undanförnum árum hafi með arðgreiðslum fært milljarða króna frá Orkuveitu Reykjavíkur yfir í borgarsjóð og að sá arður sem krafist hefur verið á undanförnum árum sé síst lægri en sá sem gert er ráð fyrir í frv. Ef ég skil málið rétt munu fulltrúar flokks hans samþykkja og hafa samþykkt á undanförnum árum þá framkvæmd sem lögð er til í þessu frv. og hann leggst gegn hér í þingsölum. (JBjarn: Ekki hlutafélagavæðingunni.)